Háskóli Íslands

Minningarsjóður Theódórs Johnson við Háskóla Íslands, hefur úthlutað þremur styrkjum til meistaranema við Háskóla Íslands

Auglýst var eftir umsóknum í desember, 22 umsóknir bárust og hefðu margir umsækjenda reynst vel að styrknum komnir. Stjórn Styrktarsjóða Háskóla Íslands ákvað að eftirtaldir hlytu styrk að þessu sinni.

Einar Sigmarsson er meistaranemi í íslenskum fræðum. Einar hefur sýnt afburðanámsárangur bæði í grunn- og meistaranámi við Háskóla Íslands. Hann vinnur nú að rannsóknarverkefni sínu um finngálkn sem hann stefnir að skila vorið 2004. Einar hefur haldið fyrirlestra um viðfangsefni sitt og fengið birtar ritrýndar greinar

Kristinn Hafþór Sæmundsson er meistaranemi í fiskifræði og tölfræði. Hann mun vinna að lokaverkefni sínu við James Cook University í Ástralíu á þessu ári og dvelja þar ásamt fjölskyldu sinni. Rannsóknarverkefni Kristins snýr að úrvinnslu gagna úr merkingargrunni Hafrannsóknarstofnunar Íslands, þar sem hann mun beita nýjustu aðferðum tölfræðinnar til að bera saman útbreiðslu fiska milli svæða eða milli ára (spatial- and environmental statistics).

Sædís Ólafsdóttir er meistaranemi í jarð- og landafræði. Hún vinnur að meistaraverkefni við Háskóla Íslands og Boulderháskóla í Colorado í Bandaríkjunum, sem fjallar um fornstrauma og veðurfar norðvestur af Íslandi síðustu 35.000 árin, með greiningu götunga og samsætumælingar í háupplausn. Sædís hefur þegar sýnt fram á fræðilegt framlag í alþjóðlegu samhengi í meistaraverkefni sínu.

Minningarsjóður Theódórs Johnson var stofnaður við Háskóla Íslands, með erfðaskrá Theódórs frá 1968. Theódór var umsvifamikill í viðskiptum og rak meðal annars hótel í Reykjavík. Tilgangur sjóðsins er að styrkja til náms við Háskóla Íslands efnilega en efnalitla stúdenta. Úthlutað hefur verið úr sjóðnum með nokkurra ára millibili eftir því sem ávöxtun gjafarinnar hefur gefið tækifæri til.

 

Ljósmynd: Frá vinstri: Ásta Hrönn Maack, forstöðumaður Styrktarsjóða HÍ, Regína Laufdal Aðalsteinsdóttir, mágkona Kristins Hafþórs Sæmundssonar, Sædís Ólafsdóttir, meistaranemi í jarð- og landfræði , Einar Sigmarsson, meistaranemi í íslenskum fræðum, og Gylfi Magnússon, formaður stjórnar Styrktarsjóða Háskóla Íslands.

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is