Háskóli Íslands

Rannsókn á kynferðiseinelti í íslenskri skólamenningu hlýtur styrk

Rannsókn sem miðar að því að greina kynferðiseinelti í íslenskri skólamenningu hefur hlotið styrk úr Styrktarsjóði Margaretar og Bents Schevings Thorsteinsonar við Háskóla Íslands. Styrkhafi er Rannveig Ágústa Guðjónsdóttir, sem er við það að ljúka meistaranámi í kynjafræði við Stjórnmálafræðideild Háskóla Íslands. Heildarupphæð styrksins nemur 1,2 milljónum króna.  
 
Í rannsókn Rannveigar Ágústu er leitast við að skoða einelti í tengslum við valdamisræmi kynjanna í samfélaginu. Hugtakið „könsmobbning“ hefur verið notað annars staðar á Norðurlöndunum yfir þá birtingarmynd eineltis þar sem kyn brotaþola verður útgangspunktur eineltisins. Slíkt hugtak hefur ekki áður verið notað með fræðilegum hætti hérlendis en markmiðið með rannsókn Rannveigar Ágústu er að heimfæra hugtakið kynferðiseinelti á íslenskan veruleika, gera grein fyrir því út frá reynslu þeirra sem hafa upplifað það og skoða þannig hvernig hugtakið birtist í íslenskri skólamenningu. Tekin verða viðtöl við brotaþola sem upplifað hafa kynferðiseinelti í grunn- eða framhaldsskóla og hafa í dag náð 18 ára aldri.
 
Hagnýtt gildi verkefnisins felur í sér að móta hugtak sem hægt er að nýta sem regnhlífarhugtak yfir ákveðnar birtingarmyndir áreitni og eineltis sem hafa með kyn viðkomandi að gera. Mikilvægi verkefnisins er jafnframt fólgið í því að vekja athygli á málaflokknum og leita leiða til úrbóta. Leiðbeinandi Rannveigar Ágústu er Gyða Margrét Pétursdóttir, lektor við Stjórnmálafræðideild Háskóla Íslands.
 
Vinna við rannsóknina hófst árið 2016 og er hún sjálfstætt framhald af meistaraverkefni Rannveiga Ágústu sem fjallaði um reynslu kvenna sem upplifðu kynferðisofbeldi í nánu sambandi sem unglingar. Rannsóknin er unnin í samstarfi við styrktarsjóð Margaretar og Bents Schevings Thorsteinssonar en markmið hans er að standa fyrir rannsóknum á einelti og kanna allar lagalegar og siðferðilegar leiðir til að fyrirbyggja einelti og bæta fyrir afleiðingar þess.
 
Styrktarsjóðurinn var stofnaður með veglegri peningagjöf Margaretar og Bents 25. september árið 2001 en árið 2007 bættu þau hjón um betur og lagði til viðbótarframlag við höfuðstól sjóðsins. Sjóðurinn er einn þriggja sem Bent Scheving Thorsteinsson hefur stofnað við Háskóla Íslands. Hinir tveir sjóðirnir eru Verðlaunasjóður Óskars Þórðarsonar barnalæknis, fósturföður Bents, sem styrkir rannsóknir á sviði barnalækninga, og Verðlaunasjóður Bergþóru og Þorsteins Scheving Thorsteinssonar, föður Bents, sem styrkir rannsóknir á sviði lyfjafræði. Með stofnun þessara þriggja sjóða hafa Margaret og Bent Scheving Thorsteinsson gefið háskólanum samtals 60 milljónir króna.
 
Styrktarsjóðir Háskóla Íslands hafa umsjón með sjóðum og gjöfum sem Háskóla Íslands hafa verið ánafnaðar allt frá stofnun hans. Flestir þeirra starfa samkvæmt staðfestri skipulagsskrá og er þeim ætlað að styðja ýmis verkefni á ákveðnum fræðasviðum til hagsældar fyrir Háskóla Íslands, stúdenta eða starfsfólk. 
 
Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is