Háskóli Íslands

Siðferðisskilningur og sjálfbær þróun

Jón Á. Kalmansson, Hugvísindi

Eitt meginviðfangsefni siðfræðilegrar hugsunar er að skýra eðli siðferðilegrar skynsemi og þeirra siðferðilegu mælikvarða sem gilda um mannlegt lífi og breytni. Þessa skynsemi og mælikvarða má útskýra á ólíka vegu, til dæmis út frá almannaheill (nytjastefna), samkvæmni viljans (siðfræði Immanuels Kant) eða sáttmála frjálsra einstaklinga (sáttmálakenningar). 

Í verkefninu verður leitast við að gera grein fyrir hugmynd um siðferðileg takmörk sem leggur skilning á mannlegu lífi og merkingu mannlegs lífs til grundvallar siðferðilegri hugsun. Í stuttu máli felur þessi hugmynd í sér að siðferði byggist öðru fremur á viðurkenningu á grunnstaðreyndum mannlegs líf og hlutskiptis, til dæmis þeirri staðreynd að menn og aðrar lífverur deila saman stuttu, viðkvæmu og einstöku lífi á jörðinni.

Viðurkenning af þessu tagi byggist á því að menn þroski skynsemi sína og næmi í víðasta skilningi og leggi meðal annars rækt við eiginleika á borð við ímyndunarafl, undrun, tilfinningu, og hæfileikann til að skoða heiminn frá víðara sjónarhorni en eiginhagsmunum. Leitast er við að sýna fram á hvernig slík viðurkenning er mikilvæg forsenda virðingar og um leið fúsleika til að sætta sig við þau takmörk sem marka óhjákvæmilega líf manna.

Loks verður skoðað hvernig þessi grundvallarhugsun birtist í hugtakinu sjálfbær þróun. Færa má rök fyrir því að sjálfbær þróun kalli á viðurkenningu manna á sjálfstæðu gildi annarra lífvera, tegunda og vistkerfisins í heild. Sömuleiðis má greina í hugmyndafræði sjálfbærrar þróunar áherslu á þau takmörk sem mannlegt samfélag og hagkerfi verður að virða eigi þau að þrífast til framtíðar, og um leið gagnrýni á það hömluleysi sem einkennir hagkerfi nútímans.

Leiðbeinandi: Róbert H. Haraldsson, dósent í heimspeki við hugvísindadeild Háskóla Íslands.

Úthlutunarár: 
Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is