Háskóli Íslands

Jötnar í blíðu og stríðu

Ingunn Ásdísardóttir, doktorsnemi í þjóðfræði við Félags- og mannvísindadeild

Ingunn stundar doktorsnám í þjóðfræði við HÍ og er að rannsaka jötna í norrænni goðafræði. „Í rannsókn minni leita ég að uppruna og eðli þessara goðvera, rannsaka hver og hvernig frumhugmyndin um þá hefur verið og hvort og þá hvernig ímynd þeirra breytist í tímans rás í meðförum átrúnaðar, samfélags og umhverfis.

Ennfremur skoða ég hvaða hlutverkum jötnar gegna og hvaða tilgangi þau hlutverk þjóna, annars vegar innan goðheimsins sjálfs og tilvistar hans og hins vegar í átrúnaði manna.

Jafnframt skoða ég hvort og þá hver áhrif kristnar hugmyndir hafi hugsanlega haft á þá ímynd jötna sem fram kemur í heimildunum og hvort hin kristna hugmynd um illsku eigi við þar sem jötnar eru annars vegar."

Ingunn segir að þegar fjallað sé um norræna goðafræði þá sé um að ræða allt skandinavíska svæðið en aðalheimildirnar um þessa mýtólógíu séu eingöngu til á íslensku og skráðar af Íslendingum. Þetta eru einkum eddukvæðin, dróttkvæðin og verk Snorra Sturlusonar auk fáeinna erlendra rita á latínu.

„Í þessum frumheimildum eru jötnar áberandi, bæði sem stakar, nafngreindar persónur og sem hópur. Jötnarnir eru þær verur sem mynda mótvægi við goðin, eru andstæða þeirra og óvinir, og reyna stöðugt að hrinda veröld goða og manna, ógna henni og ná yfirhöndinni. Jötnar eru fulltrúar óreiðu, illinda og óhaminna afla af öllu tagi, þeir ógna skipulagi goðanna, menningu og fastmótaðri skipan veraldarinnar og mannlegs og guðlegs samfélags. En jötnar eru líka mikilvægir meðleikendur í sköpun heimsins, forfeður guðanna sjálfra og afar margbrotnar verur, spakir að viti og fjölkunnugir og jötnameyjar oft íðilfagrar og vekja girnd goðanna. Og það er einmitt þetta sem gerir þá svo spennandi í mínum augum, þessar ótrúlegu mótsagnir sem þrátt fyrir miklar rannsóknir í norrænni goðafræði hafa ekki verið skýrðar til fulls."

Leiðbeinandi: Terry Gunnell, prófessor í þjóðfræði.

Ingunn hlaut doktorsnemastyrk úr Rannsóknasjóði 2008.

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is