Háskóli Íslands

26 afreksnemendur styrktir til náms við HÍ

Tuttugu og sex afburðanemendur úr tólf framhaldsskólum víðs vegar að af landinu hafa hlotið styrki úr Afreks- og hvatningarsjóði stúdenta Háskóla Íslands til náms við skólann. Styrkirnir voru afhentir við hátíðlega athöfn á Háskólatorgi í dag.
 
Nemendurnir eiga það sameiginlegt að hafa náð framúrskarandi árangri á stúdentsprófi og hefja þeir allir nám við Háskóla Íslands í haust. Hver styrkur nemur 300 þúsund krónum en auk þess verður greitt skrásetningargjald fyrir styrkþegana sem er 75 þúsund krónur. Samanlögð styrkupphæð nemur því tæpum tíu milljónum króna.
 
Auglýst var eftir styrkjum úr Afreks- og hvatningarsjóði stúdenta Háskóla Íslands í vor. Við val á styrkhöfum var m.a. litið til árangurs á stúdentsprófi en einnig voru önnur sjónarmið lögð til grundvallar, svo sem virkni í félagsstörfum í framhaldsskóla og árangur á öðrum sviðum, til dæmis í listum eða íþróttum. Afar sterkar umsóknir bárust í ár og því var stjórn sjóðsins mikill vandi á höndum.
 
Af þeim 26 verðandi nemendum við Háskóla Íslands sem hljóta styrki að þessu sinni eru ellefu dúxar og sex semidúxar í framhaldsskólum á síðustu árum. Þessir tilvonandi nemendur Háskóla Íslands koma úr tólf framhaldsskólum og sækjast eftir inngöngu í sextán ólíkar námsleiðir. Tuttugu konur og sex karlar eru í hópnum.
 
Styrkhafarnir eru: Arnar Kári Sigurðsson, Árný Jóhannesdóttir, Berglind Gunnarsdóttir, Birna Brynjarsdóttir, Böðvar Páll Ásgeirsson, Dagbjört Inga Grétarsdóttir, Daníel Kristinn Hilmarsson, Darri Egilsson, Elínrós Þorkelsdóttir, Esther Hallsdóttir, Freyja Björk Dagbjartsdóttir, Guðbjörg Júlía Magnúsdóttir, Halldóra Sigríður Halldórsdóttir, Heiður Þórisdóttir, Jóhannes Gauti Óttarsson, Karítas Pálsdóttir, Katrín Blöndal, Kristín Kolka Bjarnadóttir, Lilja Björg Sigurjónsdóttir, Margrét Lilja Arnarsdóttir, Marta Jónsdóttir, Sunneva Smáradóttir, Unnur Ýr Haraldsdóttir, Þjóðbjörg Eiríksdóttir, Þorkell Már Einarsson og Þórunn Helgadóttir.
 
Styrkir úr Afreks- og hvatningarsjóði stúdenta Háskóla Íslands eru nú afhentir í sjöunda sinn. Sjóðurinn var stofnaður árið 2008 og er markmið hans að styrkja nýnema til náms við Háskóla Íslands. Alls hafa 138 styrkir verið veittir úr sjóðnum frá upphafi. Styrkirnir í ár eru veittir með stuðningi Aldarafmælissjóðs Háskóla Íslands og Happdrættis Háskóla Íslands.
 
Stjórn sjóðsins skipa Þórdís Kristmundsdóttir formaður, Róbert H. Haraldsson og Sæunn Stefánsdóttir.
 
 
Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is