Háskóli Íslands

Afburðanemendur fá styrk í Háskóla Íslands 2009

Í dag voru veittir ellefu styrkir til afburðanemenda sem hefja nám í Háskóla Íslands næsta haust. Um er að ræða styrki til nemenda sem náð hafa framúrskarandi árangri á stúdentsprófi og innritast í Háskóla Íslands. Hver styrkur nemur 300.000 krónum auk niðurfellingar skráningargjalds í Háskólann, sem er 45.000 krónur. Styrkirnir voru afhentir á Háskólatorgi við hátíðlega athöfn. Þetta er í annað sinn sem styrkir eru veittir úr Afreks- og hvatningarsjóði stúdenta Háskóla Íslands en sjóðurinn var stofnaður í fyrra og er markmið hans að styrkja nýnema til náms við Háskóla Íslands. Styrkirnir í ár eru veittir með stuðningi Símans og Happdrættis Háskóla Íslands.

Alls bárust 119 umsóknir um ellefu styrki úr sjóðnum og var samkeppnin hörð. Við val á styrkhöfum var litið til afburðaárangurs á stúdentsprófi en einnig voru lögð til grundvallar sjónarmið um virkni stúdents í félagsstörfum í framhaldsskóla auk árangurs á öðrum sviðum, svo sem í listum eða íþróttum.

Stjórnin átti úr vöndu að ráða en hana skipa Þórdís Kristmundsdóttir formaður, Sigurður J. Grétarsson og Björg Björnsdóttir.

Þeir ellefu afburðastúdentar sem valdir voru úr glæsilegum hópi umsækjenda koma úr átta framhaldsskólum, sækjast eftir inngöngu í níu ólíkar námsleiðir og er kynjahlutfallið fjórir karlar og sjö konur.

Styrkhafarnir eru:

 • Arna Pálsdóttir, Menntaskólinn í Reykjavík, efnaverkfræði
 • Bjarni Þór Sigurbjörnsson, Menntaskólinn í Kópavogi, lögfræði
 • Edda Pálsdóttir, Menntaskólinn við Hamrahlíð, umhverfis- og byggingarverkfræði
 • Hafsteinn Gunnar Hauksson, Verzlunarskóli Íslands, hagfræði
 • Helga Theodóra Jónasdóttir,Verzlunarskóli Íslands, lögfræði
 • Hugrún Jónsdóttir, Fjölbrautaskólinn í Garðabæ, hagfræði 
 • Sigurrós Jónsdóttir, Menntaskólinn í Reykjavík, læknisfræði
 • Stefanía Hákonardóttir, Borgarholtsskóli, rafmagnsverkfræði 
 • Tómas Örn Rosdahl, Menntaskólinn í Reykjavík, eðlisfræði
 • Urður María Sigurðardóttir, Menntaskólinn á Egilsstöðum, sálfræði
 • Ögmundur Eiríksson, Menntaskólinn að Laugarvatni, stærðfræði með eðlisfræðikjörsvið
Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is