Háskóli Íslands

Afburðanemendur hljóta styrki til náms í Háskóla Íslands

Tuttugu og sex afburðanemendur sem hefja nám í Háskóla Íslands næsta haust fengu í dag afhenta styrki úr Afreks- og hvatningarsjóði stúdenta Háskóla Íslands. Nemendurnir eiga það sameiginlegt að hafa náð framúrskarandi árangri á stúdentsprófi. Hver styrkur nemur 300.000 krónum auk niðurfellingar skráningargjalds sem er 60.000 krónur. Heildarupphæð styrkjanna er því rúmlega 9,3 milljónir króna. Styrkirnir voru afhentir á Háskólatorgi við hátíðlega athöfn.

Alls bárust 77 umsóknir um þá styrki sem auglýstir voru frá framúrskarandi nemendum og því ljóst að samkeppnin var afar hörð.  Ákveðið var að úthluta 26 styrkjum úr sjóðnum í ár og hafa þeir aldrei verið fleiri. Af þeim 26 tilvonandi nemendum Háskóla Íslands sem hljóta styrk úr sjóðnum í ár voru 13 dúxar og sjö semidúxar í framhaldsskólum sínum síðustu tvö skólaár. Háskóla Íslands er mikill fengur að slíku afreksfólki og býður það hjartanlega velkomið til náms.

Við val á styrkhöfum var litið til afburðaárangurs á stúdentsprófi en einnig voru önnur sjónarmið lögð til grundvallar, svo sem virkni í félagsstörfum í framhaldsskóla og árangur á öðrum sviðum, til dæmis í listum eða íþróttum. Þá ákvað stjórn sjóðsins í ár að úthluta allt að þremur styrkjum til nýnema sem sýnt hafa sérstakar framfarir í námi eða góðan námsárangur þrátt fyrir sérstakar eða erfiðar aðstæður. Styrkhafahópurinn er því afar fjölbreyttur og koma styrkþegar víða að af landinu.

Þeir 26 nemendur sem valdir voru úr glæsilegum hópi umsækjenda koma úr 16 framhaldsskólum og sækjast eftir inngöngu í 15 ólíkar námsleiðir. Í hópnum eru níu karlar og 17 konur.

Styrkhafarnir eru: Agnes Eva Þórarinsdóttir, Alexander Gabríel Guðfinnsson, Alma Rut Óskarsdóttir, Anna Rún Þorsteinsdóttir, Atli Þór Sveinbjarnarson, Áslaug Haraldsdóttir, Dagný Björk Egilsdóttir, Elín Broddadóttir, Gauti Baldvinsson, Halldór Bjarni Þórhallsson, Hallfríður Kristinsdóttir, Heiðar Snær Jónasson, Helga Margrét Þorsteinsdóttir, Hólmfríður Hannesdóttir, Hörður Bragi Helgason, Íris Dögg Héðinsdóttir, Jia Chen, Jóel Rósinkrans Kristjánsson, Margrét Snæfríður Jónsdóttir, Ólafur Heiðar Helgason, Saga Guðmundsdóttir, Sigríður Lilja Magnúsdóttir, Simona Vareikaite, Sólveig Guðmunda Guðmundsdóttir, Sæþór Pétur Kjartansson og Valgerður Bjarnadóttir.

Þetta er í fimmta sinn sem styrkir eru veittir úr Afreks- og hvatningarsjóði stúdenta Háskóla Íslands. Sjóðurinn var stofnaður árið 2008 og er markmið hans að styrkja nýnema til náms við Háskóla Íslands. Styrkirnir í ár eru m.a. veittir með stuðningi Happdrættis Háskóla Íslands.

Stjórn sjóðsins skipa Þórdís Kristmundsdóttir formaður, Róbert H. Haraldsson og Sæunn Stefánsdóttir.

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is