Háskóli Íslands

Afreks- og hvatningarsjóður stúdenta Háskóla Íslands - Ellefu styrkir til nýnema við HÍ

Ellefu styrkir verða veittir úr Afreks- og hvatningarsjóði stúdenta Háskóla Íslands 16. júní 2009. Um er að ræða styrki til nemenda sem náð hafa afburðaárangri á stúdentsprófi og innritast í Háskóla Íslands. Hver styrkur nemur 300.000 krónum auk niðurfellingar skráningargjalds í Háskólann, sem er 45.000 krónur.
Þetta er í annað sinn sem styrkir eru veittir úr Afreks- og hvatningarsjóði stúdenta við Háskóla Íslands en sjóðurinn var stofnaður í fyrra. Styrkirnir í ár eru veittir með stuðningi Símans og Happdrættis Háskóla Íslands. Umsóknarfrestur um styrki úr Afreks- og hvatningarsjóðnum fyrir þetta ár rennur út 5. júní 2009.

Stjórn sjóðsins velur styrkhafana en við valið er einkum tekið mið af framúrskarandi námsárangri á stúdentsprófi. Einnig er horft til virkni í félagsstörfum og árangurs stúdenta á öðrum sviðum, s.s. í listum og íþróttum.

Háskóli Íslands er stærsti og elsti háskóli landsins og jafnframt sá skóli sem býður upp á mesta fjölbreytni í námsvali. Háskóli Íslands menntar Íslendinga til að takast á við krefjandi störf í framtíðinni og stuðlar þannig að bættum lífskjörum á Íslandi. Í Háskólanum eru stúdentar hvattir til að víkka sjóndeildarhringinn og nýta hæfileika sína til fulls.

Helstu upplýsingar um sjóðinn, umsóknarfrest o.fl. er að finna á heimasíðu Háskóla Íslands, www.hi.is.

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is