Háskóli Íslands

Afreksnemar hljóta styrki til náms við HÍ

Tuttugu og fjórir afburðanemendur úr framhaldsskólum víðs vegar af landinu tóku við styrkjum úr Afreks- og hvatningarsjóði stúdenta Háskóla Íslands við hátíðlega athöfn á Háskólatorgi í dag. Nemendurnir hefja allir nám í Háskóla Íslands í haust. Samanlögð styrkupphæð nemur rúmum 8,6 milljónum króna.
 
Nemendurnir, sem tóku við styrkjunum í dag, eiga það sameiginlegt að hafa náð framúrskarandi árangri á stúdentsprófi. Hver styrkur nemur 300 þúsund krónum en auk þess verður greitt skráningargjald sem er 60 þúsund krónur.
 
Auglýst var eftir styrkjum úr Afreks- og hvatningarsjóði stúdenta Háskóla Íslands í vor og barst fjöldi umsókna. Ákveðið var að úthluta 24 styrkjum að þessu sinni en við val á styrkhöfum var m.a. litið til árangurs á stúdentsprófi en einnig voru önnur sjónarmið lögð til grundvallar, svo sem virkni í félagsstörfum í framhaldsskóla og árangur á öðrum sviðum, til dæmis í listum eða íþróttum.
 
Af þeim 24 styrkþegum sem hljóta styrk að þessu sinni eru tólf dúxar og tveir semidúxar í framhaldsskólum sínum síðustu tvö skólaár. Þessir tilvonandi nemendur Háskóla Íslands koma úr þrettán framhaldsskólum úr öllum landsfjórðungum og sækjast eftir inngöngu í ellefu ólíkar námsleiðir. Þrettán konur og ellefu karlar eru í hópnum.
 
Styrkhafarnir eru:  Alexander Elís Ebenesersson, Andri Oddur Steinarsson, Anna Rut Arnardóttir, Arna Rut Emilsdóttir, Arnar Snær Ágústsson, Árni Björn Höskuldsson, Ásdís Sæmundsdóttir, Birna Helga Jóhannesdóttir, Birta Bæringsdóttir, Bjarni Örn Kristinsson, Fjóla Kristín B. Blandon, Gísli Þór Þórðarson, Guðrún Valdís Jónsdóttir, Guðrún Svanhvít S. Michelsen, Guðrún Þóra Sigurðardóttir, Halla Björg Sigurþórsdóttir, Hildur Þóra Ólafsdóttir, Ingvar Hjartarson, Jón Ágúst Stefánsson, Jón Áskell Þorbjarnarson, Pála Margrét Gunnarsdóttir, Pétur Rafn Bryde, Sigurður Ragnarsson og Unnur Bjarnadóttir.
 
 
Styrkir úr Afreks- og hvatningarsjóði stúdenta Háskóla Íslands eru nú afhentir í sjötta sinn. Sjóðurinn var stofnaður árið 2008 og er markmið hans að styrkja nýnema til náms við Háskóla Íslands. Alls hafa 112 styrkir verið veittir úr sjóðnum frá upphafi. Styrkirnir í ár eru veittir með stuðningi Aldarafmælissjóðs Háskóla Íslands og Happdrættis Háskóla Íslands.
 
Stjórn sjóðsins skipa Þórdís Kristmundsdóttir formaður, Róbert H. Haraldsson og Sæunn Stefánsdóttir.
 
Upplýsingar um styrktarsjóði í vörslu Háskóla Íslands er að finna á heimasíðu háskólans.
 
 
Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is