Háskóli Íslands

Afreksnemar styrktir til náms við Háskóla Íslands

Tuttugu og átta afreksnemar, 14 karlar og 14 konur, tóku í dag við styrkjum úr Afreks- og hvatningarsjóði stúdenta Háskóla Íslands við hátíðlega athöfn á Háskólatorgi. Styrkþegarnir eiga það sameiginlegt að hafa náð framúrskarandi árangri á stúdentsprófi og innritað sig til náms við skólann í haust. Þessir verðandi nemendur skólans eru úr öllum landsfjórðungum. 
 
Alls hefur verið úthlutað níu sinnum úr Afreks- og hvatningarsjóði stúdenta Háskóla Íslands en frá því að fyrstu styrkirnir voru veittir árið 2008 hafa rúmlega 180 nýnemar tekið við styrkjum úr sjóðnum. Markmið hans er að styrkja efnilega nýnema til náms við Háskóla Íslands og nemur hver styrkur 375 þúsund krónum. Samanlögð styrkupphæð nú er því rúmar tíu milljónir króna.
 
Við mat á styrkþegum er horft til árangurs þeirra á stúdentsprófi, auk annarra þátta eins og virkni í félagsstörfum í framhaldsskóla og árangurs á öðrum sviðum, til dæmis í listum eða íþróttum. Þá er stjórn sjóðsins heimilt að styrkja nýnema sem sýnt hafa fram á sérstakar framfarir í námi eða góðan námsárangur þrátt fyrir erfiðar aðstæður.  
 
Í hópi styrkþeganna 28 eru samtals 12 dúxar og semidúxar úr framhaldsskólum landsins á síðustu árum. Styrkþegarnir eru úr þrettán framhaldsskólum úr öllum landsfjórðungum og sækjast eftir inngöngu í 15 mismunandi námsleiðir við öll fræðasvið skólans. Jafnmargar konur og karlar eru í hópnum, sem fyrr segir.
 
Styrkhafarnir eru: Aðalbjörg Ýr Sigurbergsdóttir, Anna María Reynisdóttir, Arna Ýr Karelsdóttir, Aþena Eir Jónsdóttir, Bára Elísabet Dagsdóttir, Bolli Magnússon, Dagur Tómas Ásgeirsson, Daníel Þór Heimisson, Eir Andradóttir, Emil Sigurðsson, Glúmur Björnsson, Guðlaugur Bjarki Lúðvíksson, Guðrún Karlsdóttir, Ingibjörg Viktoría Hafsteinsdóttir, Jóhannes Aron Andrésson, Jóna Kristín Erlendsdóttir, Karen Engilbertsdóttir, Matthias Baldursson Harksen, Matthías Árni Guðmundsson, Númi Sveinsson, Oddur Snorrason, Sindri Engilbertsson, Skúli Guðmundsson, Stefanía Katrín J. Finnsdóttir, Sylvía Spilliaert, Vilhelm Þór Lundgrenn, Yrsa Kolka Júlíusdóttir og Þórdís Tryggvadóttir.
 
Styrkirnir í ár eru veittir með stuðningi Aldarafmælissjóðs Háskóla Íslands og Happdrættis Háskóla Íslands. Stjórn Afreks- og hvatningarsjóðs stúdenta Háskóla Íslands skipa Steinunn Gestsdóttir formaður, Börkur Hansen og Sæunn Stefánsdóttir.
 
 
Háskóla Íslands óskar styrkþegunum innilega til hamingju og býður þá og aðra nýnema hjartanlega velkomna í skólann í haust.
Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is