Háskóli Íslands

Nærri 30 afreksnemar styrktir til náms við Háskóla Íslands

Tuttugu og níu nemendur, sem hyggjast hefja nám í Háskóla Íslands í haust, tóku við styrkjum úr Afreks- og hvatningarsjóði stúdenta Háskóla Íslands við hátíðlega athöfn á Háskólatorgi í gær. Þetta var í tólfta sinn sem styrkjum var úthlutað úr sjóðnum.

Styrkþegarnir koma úr þrettán framhaldsskólum víða af landinu og eiga það sameiginlegt að hafa náð framúrskarandi árangri í námi til stúdentsprófs og jafnframt látið til sín taka á öðrum sviðum, svo sem í félagsstörfum í framhaldsskóla eða listum og íþróttum. Þá leitast stjórn sjóðsins einnig við að styrkja nýnema sem sýnt hafa fram á sérstakar framfarir í námi eða góðan námsárangur þrátt fyrir erfiðar aðstæður.  

Tuttugu og ein kona og átta karlar eru í styrkþegahópnum í ár og hyggja þau á nám í 21 námsleið á öllum fimm fræðasviðum skólans. Í þessum glæsilega hópi eru enn fremur 13 dúxar og semidúxar úr framhaldsskólum landsins á síðustu misserum og sjö styrkhafanna hlutu Menntaverðlaun Háskóla Íslands í vor eða fyrravor.

Fyrstu styrkirnir voru veittir úr Afreks- og hvatningarsjóði stúdenta Háskóla Íslands árið 2008 en frá þeim tíma hafa nærri 300 nemendur tekið við styrkjum úr sjóðnum. Hver styrkur í ár nemur 375 þúsund krónum og er samanlögð styrkupphæð tæplega ellefu milljónir króna.

Styrkhafarnir eru: Aðalbjörg Brynja Pétursdóttir, Arndís Ósk Magnúsdóttir, Árni Daníel Árnason, Erna Sól Sigmarsdóttir, Fannar Steinn Aðalsteinsson, Guðmundur Freyr Gylfason, Guðrún Edda Haraldsdóttir, Hafsteinn Rúnar Jónsson, Hugi Kjartansson, Inga Lilja Ásgeirsdóttir, Ingunn Rós Kristjánsdóttir, Ísól Lilja Róbertsdóttir, Jón Helgi Sigurðsson, Júlía Huang, Katrín María Timonen, Margrét Snorradóttir, Marín Matthildur Jónsdóttir, Melkorka Gunborg Briansdóttir, Ragnheiður Ingunn Jóhannsdóttir, Rán Finnsdóttir, Samra Begic, Sóley Arna Friðriksdóttir, Sólrún Elín Freygarðsdóttir, Sædís Karolina Þóroddsdóttir, Telma Ólafsdóttir, Tómas Ingi Hrólfsson, Vigdís Gunnarsdóttir, Weronika Natalia Wosik og Þorsteinn Ívar Albertsson.

Styrkirnir úr Afreks- og hvatningarsjóði stúdenta Háskóla Íslands eru veittir með stuðningi Aldarafmælissjóðs Háskóla Íslands og Happdrættis Háskóla Íslands. Stjórn Afreks- og hvatningarsjóðs stúdenta Háskóla Íslands skipa Steinunn Gestsdóttir, aðstoðarrektor kennslu og þróunar sem er formaður, Ólafur Pétur Pálsson, prófessor við Iðnaðarverkfræði-, vélaverkfræði og tölvunarfræðideild, og Guðbjörg Vilhjálmsdóttir, prófessor við Félags- og mannvísindadeild.

Nánari upplýsingar um styrkhafana eru í meðfylgjandi skjali.

Fleiri myndir frá athöfninni

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is