Háskóli Íslands

Nýnemar fá afreksstyrki

Fimmtudaginn 16. júní voru veittir fjórtán styrkir til afburðanemenda sem hefja nám í Háskóla Íslands næsta haust. Nemendurnir eiga það sameiginlegt að hafa náð framúrskarandi árangri á stúdentsprófi. Hver styrkur nemur 300.000 krónum auk niðurfellingar skráningargjalds sem er 45.000 krónur. Styrkirnir voru afhentir á Háskólatorgi við hátíðlega athöfn.

Þetta er í fjórða sinn sem styrkir eru veittir úr Afreks- og hvatningarsjóði stúdenta Háskóla Íslands en sjóðurinn var stofnaður árið 2008 og er markmið hans að styrkja nýnema til náms við Háskóla Íslands. Styrkirnir í ár eru veittir með stuðningi Happdrættis Háskóla Íslands.

Alls bárust 56 umsóknir frá nemendum í fjórtán framhaldsskólum um þá tólf styrki sem auglýstir voru til umsóknar. Samkeppnin var hörð þar sem um mjög marga framúrskarandi nemendur var að ræða. Í ljósi þess ákvað Háskóli Íslands að fjölga styrkjunum í fjórtán. Af þeim fjórtán tilvonandi nemendum Háskóla Íslands sem hljóta styrk úr sjóðnum í ár eru sjö dúxar og tveir semidúxar. Háskóli Íslands býður þetta afreksfólk velkomið í skólann og er mikill fengur að því fyrir skólann að fá svo góða nemendur í sínar raðir.

Við val á styrkhöfum var litið til afburðaárangurs á stúdentsprófi en einnig voru lögð til grundvallar sjónarmið um virkni stúdents í félagsstörfum í framhaldsskóla auk árangurs á öðrum sviðum, svo sem listum eða íþróttum. Styrkhafar koma alls staðar af landinu og auk þess að sýna afburðaárangur í námi eru þeir afreksfólk í tónlist, íþróttum, félags- og ungmennastarfi.

Stjórn Afreks- og hvatningarsjóðs stúdenta Háskóla Íslands skipa Þórdís Kristmundsdóttir formaður, Róbert Haraldsson og Sæunn Stefánsdóttir.

Þeir fjórtán nemendur sem valdir voru úr glæsilegum hópi umsækjenda koma úr átta framhaldsskólum og sækjast eftir inngöngu í níu ólíkar námsleiðir. Í hópnum eru fimm karlar og níu konur.

Styrkhafarnir eru: Andri Már Kristinsson, sem hefur nám í vélaverkfræði, Auður Tinna Aðalbjarnardóttir, sem hefur nám í lögfræði, Arnór Ingi Sigurðsson, sem hefur nám í lífefna- og sameindalíffræði, Ásbjörg Einarsdóttir, sem hefur nám í iðnaðarverkfræði, Erla Björt Björnsdóttir, sem hefur nám í lyfjafræði, Eva Hrund Hlynsdóttir, sem hefur nám í læknisfræði, Guðjón Reykdal Óskarsson, sem hefur nám í lyfjafræði, Gunnar Björn Ólafsson, sem hefur nám í læknisfræði, Helga Þórarinsdóttir, sem hefur nám í læknisfræði, Herbjörg Andrésdóttir, sem hefur nám í umhverfis- og byggingarverkfræði, Hrafnhildur Gunnarsdóttir, sem hefur nám í læknisfræði, Sigtryggur Hauksson, sem hefur nám í eðlisfræði, Svava Berglind Finsen, sem hefur nám í ensku og Yrsa Yngvadóttir, sem hefur nám í læknisfræði.
 

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is