Háskóli Íslands

Sigrúnarsjóður í Háskóla Íslands

Nýr styrktarsjóður, Sigrúnarsjóður, hefur verið færður Háskóla Íslands. Stofnandi sjóðsins er Sigrún Júlíusdóttir, prófessor emerita í félagsráðgjöf. Við flutning sjóðsins undir hatt Styrktarsjóða Háskóla Íslands undirrituðu Sigrún og Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands,nýja skipulagsskrá fyrir sjóðinn.
 
Meginmarkmið Sigrúnarsjóðs er að efla rannsóknir og doktorsnám ásamt sérfræðiþekkingu í félagsráðgjöf með því að veita fjárstyrki til:
   a)   doktorsverkefna í félagsráðgjöf sem snerta  málefni barna og fjölskyldna.
   b)   frumrannsókna, þ.e. rannsókna sem fela í sér nýsköpun þekkingar á sviðinu.
   c)   þróunar aðferða á sérsviðum sem varða hagsmuni barna og fjölskyldna.
   d)   þróunar- og tilraunaverkefna sem efla fræðilegt og faglegt framlag á sviðinu.
   e)   fræðsluverkefna á sérsviðum félagsráðgjafar sem varða hagsmuni barna og fjölskyldna.
 
Sigrúnarsjóður var stofnaður árið 2012 og starfar samkvæmt staðfestri skipulagsskrá með sjálfstætt starfandi stjórn.
 
Í fráfarandi stjórn sjóðsins sitja ásamt Sigrúnu, formanni stjórnar, þær Lára Björnsdóttir, félagsráðgjafi og fyrrverandi félagsmálastjóri Reykjavíkurborgar, og Ragnhildur Geirsdóttir, verkfræðingur og framkvæmdastjóri reksrar og upplýsingatækni hjá Landsbankanum. Varamenn eru Ingibjörg Broddadóttir félagsráðgjafi og Heiðrún Jónsdóttir lögfræðingur. Ný stjórn verður skipuð í byrjun árs 2017.
 
Styrkir voru í fyrsta sinn veittir úr Sigrúnarsjóði í maí 2016 í tengslum við 5 ára afmæli sjóðsins og 10 ára afmælisþing Rannsóknastofnunar í barna- og fjölskylduvernd (RBF) sem haldið var á  vegum Félagsráðgjafardeildar Háskóla Íslands.
 
Sigrún Júlíusdóttir er einnig stofnandi RBF við Háskóla Íslands og hefur hún verið einn ötulasti talsmaður þróunar menntunar, rannsókna og fræða í félagsráðgjöf.
 
Styrktarsjóðir Háskóla Íslands hafa umsjón með sjóðum og gjöfum  sem Háskóla Íslands hafa verið ánafnaðar allt frá stofnun hans. Flestir þeirra starfa samkvæmt staðfestri skipulagsskrá og er þeim ætlað að styðja ýmis verkefni á ákveðnum fræðasviðum til hagsældar fyrir Háskóla Íslands, stúdenta eða starfsfólk.
 
Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is