Háskóli Íslands

Styrkir til doktorsnema í hjúkrunarfræði

Þrír doktorsnemar í hjúkrunarfræði hlutu í dag, 8. október, styrk úr Rannsóknasjóði Ingibjargar R. Magnúsdóttur. Styrkhafarnir eru Ásta B. Pétursdóttir, Berglind Hálfdánsdóttir og Rannveig J. Jónasdóttir. Heildarupphæð styrkjanna nemur 1,1 milljón króna. Þetta í sjöunda sinn sem úthlutað er úr sjóðnum en hann var stofnaður við Háskóla Íslands í júní árið 2007.

Doktorsrannsókn Ástu B. Pétursdóttur hefur þann tilgang að kanna ávinning af meðferðarsamræðum við fjölskyldumeðlimi sem annast um náinn ættingja með ólæknandi krabbamein. Einnig er leitast við að kanna samspil þunglyndis, kvíða, streitu, heilsutengdra lífsgæða, stuðnings og fræðslu við fjölskyldur, umönnunarálag og bakgrunnsþætti fjölskyldunnar og gagnsemi meðferðarinnar við að styðja fjölskylduna sem þátttakanda í líknandi meðferð. Auk þess verður kannað hvort þær fjölskyldur sem taka þátt í meðferðarsamræðunum vinni betur úr sorgarreynslu eftir andlát náins ættingja en þær fjölskyldur sem fá hefðbundna þjónustu. Í rannsókninni er einnig ætlunin að meta ávinning af innleiðingu klínískra leiðbeininga í sérhæfðri hjúkrun þessum fjölskyldum til handa. Leiðbeinandi Ástu B. Pétursdóttur er dr. Erla Kolbrún Svavarsdóttir, prófessor við Hjúkrunarfræðideild Háskóla Íslands.

Doktorsrannsókn  Berglindar Hálfdánsdóttur hefur það meginmarkmið að meta hvort heimafæðing er öruggur valkostur við sjúkrahúsfæðingu á Íslandi meðal heilbrigðra kvenna í eðlilegri fæðingu. Tilgangur rannsóknarinnar er að styðja við þróun barneignarþjónustu, efla upplýst val foreldra og bæta við alþjóðlega þekkingu á heimafæðingum. Tíðni heimafæðinga á Íslandi hefur aukist hratt á síðustu árum í kjölfar sögulegrar lægðar í lok síðustu aldar. Doktorsrannsóknin skiptist í hugtakagreiningu og þrjár afturvirkar ferilrannsóknir á útkomu heimafæðinga og sjúkrahúsfæðinga og tengslum útkomunnar við ýmsar áhrifabreytur. Leiðbeinandi Berglindar er dr. Herdís Sveinsdóttir, prófessor við Hjúkrunarfræðideild Háskóla Íslands.

Doktorsrannsókn Rannveigar J. Jónasdóttur er samanburðarrannsókn þar sem sjónum er beint að eftirgæslu sjúklinga eftir útskrift af gjörgæsludeild. Bráð og alvarleg veikindi sem leiða til innlagnar á gjörgæsludeild hafa langvinn áhrif á heilsu og líðan sjúklinga. Vegna hins hæga bataferils hefur verið mælt með því að heilbrigðisstarfsfólk með þekkingu á gjörgæslu fylgi eftir sjúklingum sem útskrifast hafa af þaðan og á legudeild. Eftirgæsla hefur lítið verið rannsökuð og gagnsemi ekki vel þekkt.  Markmið þessarar rannsóknar er að mæla áhrif af skipulagðri, hjúkrunarstýrðri eftirgæslu á heilsu og líðan sjúklinga eftir útskrift af gjörgæsludeild samanborið við hefðbundna þjónustu. Leiðbeinandi Rannveigar er dr. Helga Jónsdóttir, prófessor við Hjúkrunarfræðideild Háskóla Íslands.

Rannsóknasjóður Ingibjargar R. Magnúsdóttur vinnur að því að efla rannsóknir í hjúkrunar- og ljósmóðurfræðum og veitir sjóðurinn styrki til rannsóknaverkefna sem samræmast markmiðum hans. Ingibjörg R. Magnúsdóttir, hjúkrunarfræðingur og stofnandi sjóðsins, er fyrrverandi námsbrautarstjóri í hjúkrunarfræði við Háskóla Íslands og skrifstofustjóri í heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu. Ingibjörg hefur verið einn ötulasti talsmaður þróunar hjúkrunarmenntunar á Íslandi og var ein þeirra sem stóð að stofnun námsbrautar í hjúkrunarfræði við Háskóla Íslands árið 1973. Rannsóknasjóðurinn er fyrst og fremst styrktur með sölu minningarkorta og gjafafé.
 

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is