Háskóli Íslands

Styrkir til nýnema við Háskóla Íslands

Tuttugu og fjórir styrkir verða veittir úr Afreks- og hvatningarsjóði stúdenta Háskóla Íslands 20. júní nk. Um er að ræða styrki til nemenda sem náð hafa afburðaárangri á stúdentsprófi og innritast í Háskóla Íslands. Styrkirnir í ár eru veittir með stuðningi Happdrættis Háskóla Íslands og einnig með framlagi úr Aldarafmælissjóði Háskóla Íslands. Hver styrkur nemur 300 þúsund krónum auk þess sem skráningargjald í háskólann verður fellt niður hjá styrkþegum. Það nemur 60.000 krónum. 

Nýnemar við Háskóla Íslands, innritaðir í nám á haustönn, geta sótt um styrkinn. Þetta er í sjötta sinn sem styrkir eru veittir úr Afreks- og hvatningarsjóði stúdenta við Háskóla Íslands en sjóðurinn var stofnaður árið 2008.

Umsóknarfrestur er til 5. júní nk.

Stjórn sjóðsins velur styrkhafana en við valið er einkum tekið mið af framúrskarandi námsárangri á stúdentsprófi. Einnig er horft til virkni í félagsstörfum og árangurs stúdenta á öðrum sviðum, s.s. í listum og íþróttum. Stjórninni er heimilt að úthluta allt að þremur styrkjum til nýnema sem sýnt hafa sérstakar framfarir í námi eða góðan námsárangur þrátt fyrir sérstakar eða erfiðar aðstæður.

Háskóli Íslands er stærsti og elsti háskóli landsins og jafnframt sá skóli sem býður upp á mesta fjölbreytni í námsvali. Skólinn menntar nemendur til að takast á við krefjandi störf í framtíðinni og stuðlar þannig að bættum lífskjörum á Íslandi. Í háskólanum eru stúdentar hvattir til að víkka sjóndeildarhringinn og nýta hæfileika sína til fulls, m.a. með ögrandi rannsóknum og tækifærum til nýsköpunar auk þess sem skólinn býður upp á fjölbreytta möguleika til skiptináms við erlenda háskóla.

Helstu upplýsingar um sjóðinn, umsóknarfrest o.fl. er að finna á heimasíðu sjóðsins og á sjóðavef Háskóla Íslands, www.sjodir.hi.is.

Frekari upplýsingar um styrki og styrkveitingar veitir Ingibjörg Arnardóttir, starfsmaður vísinda- og nýsköpunarsviðs Háskóla Íslands, gia@hi.is, sími 525-5488.

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is