Veittur hefur verið styrkur úr Styrktarsjóði Margaretar og Bents Schevings Thorsteinsonar til rannsóknar á félagasamskiptum og einelti meðal barna og unglinga af erlendum uppruna. Styrkhafi er Eyrún María Rúnarsdóttir, stundakennari við uppeldis- og menntunarfræði á Menntavísindasviði Háskóla Íslands, en Eyrún María leggur stund á doktorsnám í fjarnámi frá Leiden-háskóla í Hollandi. Styrkupphæðin er 1,2 milljónir króna.
Doktorsrannsókn Eyrúnar Maríu er unnin við Leiden-háskóla í Hollandi og beinist að hlutverki vina og félaga í aðlögun ungra innflytjenda að íslensku samfélagi. Í þessum hluta verkefnisins er leitast við að dýpka skilning á þeim vina- og félagasamskiptum sem ungmenni af erlendum uppruna eru þátttakendur í og útskýra hvers vegna þau eru oftar í hópi gerenda, þolenda eða hvort tveggja í einelti en íslenskir félagar þeirra. Kannaðir verða þættir eins og líðan í skólanum, lífsánægja, vanlíðan og hvernig hópurinn upplifir stuðning frá foreldrum og vinum. Rannsóknin hefur fræðilegt og hagnýtt gildi. Henni ætlað að bæta úr skorti á rannsóknum á efninu ásamt því að benda á leiðir til að bæta félagatengsl ungmennanna. Rannsóknin er unnin undir leiðsögn dr. Paul Vedder, dr. Mitch van Geel og dr. Rúnars Vilhjálmssonar.
Eyrún María kynnti fyrstu niðurstöður rannsóknarinnar á Menntakviku, ráðstefnu Menntavísinsviðs Háskóla Íslands, nýverið. Í þeim hluta rannsóknarinnar aðgreindi hún fjóra hópa eftir því hvort tungumálið á heimilinu væri íslenska, pólska, asískt mál (víetnamska, filippseysk mál og taílenska) eða vesturevrópskt mál. Í öllum hópum barna af erlendum uppruna reyndist einelti umtalsvert algengara en í íslenska viðmiðunarhópnum. Verst að vígi stóðu börn af asískum uppruna en þau sögðust bæði vera þolendur eineltis og í meira mæli bæði þolendur og gerendur en aðrir hópar. Þá gætti einnig minni stuðnings frá vinum og foreldrum og neikvæðari upplifunar á bekkjarbrag hjá börnum af erlendum uppruna en íslenskum börnum og reyndist upplifun asískra barna þar vera verst. Rannsóknin leiddi hins vegar þær jákvæðu niðurstöður í ljós að allir hópar sögðust eiga nána vini og mjög lágt hlutfall barnanna átti ekki náinn vin.
Á undanförnum árum hefur einelti og afleiðingar þess, ekki síst meðal skólabarna, verið töluvert til umfjöllunar í samfélaginu og vandinn því viðurkenndur. Markmið Styrkarsjóðs Margaretar og Bents Schevings Thorsteinssonar er að standa fyrir rannsóknum á einelti og kanna allar lagalegar og siðferðilegar leiðir til að fyrirbyggja einelti og bæta fyrir afleiðingar þess.
Styrktarsjóður Margaretar og Bents Schevings Thorsteinssonar var stofnaður með veglegri peningagjöf 25. september árið 2001. Hann er einn þriggja sjóða sem Bent Scheving Thorsteinsson hefur stofnað við Háskóla Íslands. Árið 2007 bætti Bent um betur og lagði til viðbótarframlag við höfuðstól sjóðsins. Hinir tveir sjóðirnir sem Bent hefur stofnað og heyra undir Styrktarsjóði Háskóla Íslands eru Verðlaunasjóður Óskars Þórðarsonar barnalæknis og fósturföður Bents, sem styrkir rannsóknir á sviði barnalækninga, og Verðlaunasjóður Bergþóru og Þorsteins Scheving Thorsteinssonar, föður Bents, sem styrkir rannsóknir á sviði lyfjafræði. Með stofnun þessara þriggja sjóða hefur Bent Scheving gefið háskólanum samtals 60 milljónir króna.
Styrktarsjóðir Háskóla Íslands hafa umsjón með sjóðum og gjöfum sem Háskóla Íslands hafa verið ánafnaðar allt frá stofnun hans. Flestir þeirra starfa samkvæmt staðfestri skipulagsskrá og er þeim ætlað að styðja ýmis verkefni á ákveðnum fræðasviðum til hagsældar fyrir Háskóla Íslands, stúdenta eða starfsfólk.