Háskóli Íslands

Velgjörðarmaður Hjúkrunarfræðideildar heiðraður

Styrkur var veittur til doktorsrannsóknar á verkjameðferðum á Íslandi úr Rannsóknasjóði Ingibjargar R. Magnúsdóttur á dagskrá sem haldin var til heiðurs Ingibjörgu fimmtudaginn 28. október á Hilton Reykjavík Nordica. Heiðursdagskráin var á vegum Hjúkrunarfræðideildar Háskóla Íslands og var hluti af ráðstefnunni Hjúkrun 2017 – fram í sviðsljósið, sem Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga hafði forgöngu um.
 
Ingibjörg R. Magnúsdóttir var fyrsti námsbrautarstjóri námsbrautar í hjúkrunarfræði og gegndi því starfi í 15 ár. Samhliða því starfi var hún deildarstjóri og síðar skrifstofustjóri í heilbrigðis- og tryggingarmálaráðuneytinu í rúmlega 20 ár. Hún hefur verið einn ötulasti talsmaður þróunar hjúkrunarmenntunar á Íslandi og var ein þeirra sem stóð að stofnun námsbrautar í hjúkrunarfræði árið 1973. Í störfum sínum í heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu beitti hún sér fyrir margvíslegum málum til að efla hjúkrunar- og heilbrigðisþjónustu í landinu. Má þar nefna áhrif á lagasetningar um Hjúkrunarráð, sjálfstæði hjúkrunarstéttarinnar og heilsugæslu og byggingu heilsgæslustöðva á landsvísu. Hún kom á fót námi fyrir sjúkraliða sem forstöðukona á Fjórðungssjúkrahúsinu á Akureyri.
 
Rannsóknasjóður Ingibjargar R. Magnúsdóttur var stofnaður 29. júní 2007 að frumkvæði Ingibjargar sjálfrar og Rannsóknastofnunar í hjúkrunarfræði. Tilgangur sjóðsins er að efla rannsóknir í hjúkrunarfræði og ljósmóðurfræði og eru styrkir veittir til hjúkrunarfræðinga og ljósmæðra í doktorsnámi. Ingibjörg hefur lagt fram veglegar fjárupphæðir til sjóðsins sem nú hefur veitt 19 doktorsnemum rannsóknarstyrki. 
 
Á heiðursdagskránni á fimmtudag var styrk úthlutað úr sjóðnum til Hafdísar Skúladóttur, doktorsnema við Háskóla Íslands og lektors við Háskólann á Akureyri. Rannsókn hennar ber heitið „Áhrif verkjameðferða á þremur endurhæfingadeildum á Íslandi á líðan og daglegar athafnir kvenna og karla með langvarandi verki“. Hafdís lauk BS-námi í hjúkrunarfræði frá Háskóla Íslands árið 1986 og MS-gráðu frá Royal College of Nursing í Bretlandi 2001. Hún hóf doktorsnám við Háskóla Íslands árið 2015.
 
Hægt er að styrkja Rannsóknasjóð Ingibjargar R. Magnúsdóttur með ýmsu móti, t.d. með gjöfum í tilefni árgangaafmæla eða útskriftar. Einnig er hægt að senda minningarkort og tækifæriskort frá sjóðnum. Fjárhæðir má leggja inn á eftirfarandi bankareikning hjá Íslandsbanka: 0513-26-004057. Kennitala Styrktarsjóðanna HÍ er 571292-3199.
 
Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is