Háskóli Íslands

Viðurkenning Starfssjóðs Verkfræðistofnunar Háskóla Íslands

Dr. Ragnar Sigbjörnsson, prófessor í umhverfis- og byggingarverkfræðideild Háskóla Íslands og forstöðumaður Rannsóknarmiðstöðvar í jarðskjálftaverkfræði við Verkfræðistofnun Háskóla Íslands (VHÍ), hefur hlotið viðurkenningu Starfssjóðs Verkfræðistofnunar Háskóla Íslands árið 2012 vegna mikilsverðs rannsóknaframlags, sem stuðlað hefur að framgangi verkfræðirannsókna við Háskóla Íslands.

Ragnar hefur sérhæft sig í rannsóknum á sviði jarðskjálftaverkfræði, hagnýtrar aflfræði og öryggisverkfræði. Ragnar hefur birt yfir 300 ritverk, þar af yfir 100 ritrýndar vísindagreinar á ferli sínum, m.a. í virtum ritum eins og Earthquake Spectra, Risk Analysis, og Bulletin of Earthquake Engineering.  Ragnar er með virkustu rannsakendum Háskóla Íslands. Árið 2011 var Ragnar meðhöfundur að 10 vísindagreinum í alþjóðlegum ritrýndum vísindaritum sem eru á lista ISI.  Ragnar situr í ritstjórnum þriggja virtra vísindarita. Í nýlegum rannsóknum sínum kannar Ragnar skemmdir á undirstöðum og burðarvirki bygginga af völdum jarðskjálfta og byggir niðurstöðurnar á gögnum úr landsneti hröðunarmæla Rannsóknarmiðstöðvar í jarðskjálftaverkfræði en netið þekur helstu jarðskjálftasvæði landsins. Ragnar hefur verið virkur í alþjóðlegri rannsóknasamvinnu og þátttöku í fjölþjóðlegum verkefnum.

Ragnar lauk háskólagráðu í verkfræði frá Háskóla Íslands 1968, meistaraprófi í byggingarverkfræði við Tækniháskóla Danmerkur árið 1971 og doktorsprófi við sama skóla árið 1974. Ragnar hóf störf hjá Vísinda- og tækniháskóla Noregs árið 1974 og kom til Háskóla Íslands árið 1980 sem rannsóknarverkfræðingur hjá Verkfræðistofnun Háskóla Íslands. Hann veitti stofnuninni forstöðu árin 1983-1990. Ragnar varð prófessor í byggingarverkfræði við Háskóla Íslands árið 1990 og hefur einnig gegnt prófessorsstöðu við Vísinda- og tækniháskóla Noregs frá 2009. Ragnar hefur verið forstöðumaður Rannsóknarmiðstöðvar í jarðskjálftaverkfræði við Verkfræðistofnun Háskóla Íslands síðan árið 2000. Ragnar hefur kennt fjölbreytt námskeið í grunn- og framhaldsnámi og leiðbeint fjölda meistara- og doktorsnema í rannsóknaverkefnum bæði hér heima og erlendis.

Þann 17. júní 2003 var Ragnar sæmdur riddarakrossi hinnar íslensku fálkaorðu af forseta Íslands.

Starfssjóður Verkfræðistofnunar Háskóla Íslands var stofnaður af Grund, dvalar- og hjúkrunarheimili, með gjafabréfi dagsettu 29. október 1987 í tilefni af 65 ára afmæli þess. Stofnframlagið er til minningar um verkfræðingana Knud Ziemsen og Jón Þorláksson.

Viðurkenningin var veitt á ársfundi Verkfræðistofnunar Háskóla Íslands þann 27. nóvember 2012.

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is