Háskóli Íslands

Færði íslenskum ungbörnum járn í vöggugjöf

Inga Þórsdóttir, prófessor við Matvæla- og næringarfræðideild

„Ég hef mjög breiðan áhuga á manneldi og heilsu. Þegar ég kom til Íslands eftir doktorsnám í Svíþjóð sá ég að það þurfti að gera rannsóknir hér heima, bæði á mismunandi aldurshópum og á ýmsum sérhópum,“ segir Inga Þórsdóttir, prófessor í næringarfræði. Á rannsóknarstofu í næringarfræði er unnið að rannsóknum sem varða mataræði og heilsufar fólks. Inga er forstöðumaður rannsóknarstofunnar og hefur stýrt fjölmörgum rannsóknarverkefnum hérlendis og erlendis. Hún var til að mynda verkefnastjóri í viðamikilli evrópskri rannsókn sem gerð var á of þungu fólki á aldrinum 20–40 ára á tímabilinu 2006 til 2008.

„Fjögur lönd tóku þátt í rannsókninni sem byggðist á mjög stýrðri íhlutun í mataræði. Þátttakendur í rannsókninni skiptust í þrjá hópa sem fengu fisk eða lýsi og einn samanburðarhóp sem fékk ekkert sjávarfang. Hóparnir sem borðuðu sjávarfang misstu að meðaltali einu kílói meira á átta vikna tímabili en samanburðarhópurinn, en allir hóparnir fengu hóflega orkuskert fæði. Einnig kom í ljós að neysla á fiskafurðum ásamt megrunarfæði minnkar blóðfitu,“ segir Inga.

Í annarri rannsókn sem Inga stýrði árin 1995 til 1997 kom í ljós að járnbúskapur ungbarna var of lélegur. Rannsóknin byggðist á landsúrtaki ungbarna. „Í kjölfar þessara niðurstaðna voru gefnar út breyttar ráðleggingar um næringu ungbarna. Ungbörn voru svo mæld aftur árin 2005 til 2007 og þá var járnbúskapurinn mun betri en áður og má ætla að ráðleggingar okkar hafi skilað sér.“

Ráðleggingarnar sem Inga og rannsóknarteymi hennar stuðluðu að, og gefnar voru út af Miðstöð heilsuverndar barna og Manneldisráði, sneru að nokkrum þáttum. „Áður tók kúamjólk við af brjóstamjólk en núna er mælt með stoðmjólk, en hún er örlítið járnbætt og hefur minna magn próteina en venjuleg kúamjólk. Stoðmjólk er íslensk mjólkurafurð sem var þróuð af Mjólkursamsölunni með okkar aðstoð og hana er nú hægt að kaupa úti í búð,“ segir Inga. Neysla C-vítamína hefur einnig aukist með aukinni ávaxta- og grænmetisneyslu ungbarna. „Járnbúskapur skiptir miklu máli fyrir vöxt og þroska barna, meðal annars vitsmunaþroska. Hann þarf að vera þokkalega góður til að börn vaxi og dafni eðlilega.“

Inga er með sex doktorsnema á sínum snærum hérlendis og tvo erlendis. Hún er einnig formaður Manneldisráðs og leiddi rannsóknarhóp sem setti fram samnorrænar ráðleggingar um dagskammta. Má því segja að Inga sé önnum kafin, en borðar hún sjálf alltaf hollan mat? „Já, en hollt mataræði er ekki öll smáatriðin heldur heildarmyndin. Þetta voðalega stranga er ekki endilega best. Stöku „óhollusta“ er ekki svo óholl.“

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is