Háskóli Íslands

Hreyfingar á yfirborði jarðar

Rajesh Rupakhety, doktorsnemi í Umhverfis- og byggingarverkfræðideild

„Frá því að ég var í grunnnámi í jarðfræði í Nepal hef ég verið heillaður af hreyfingum yfirborðs jarðar í jarðskjálftum," segir Rajesh Rupakhety, doktorsnemi í umhverfis- og byggingarverkfræði. Hann stundar rannsóknir sínar við Rannsóknarmiðstöð HÍ í jarðskjálftaverkfræði á Selfossi. Hann segir að sem framhaldsnemi í jarðskjálftaverkfræði og jarðskjálftafræði á Ítalíu og í Grikklandi hafi hann hlotið innsýn í þessar fræðigreinar. Þegar hann frétti að Ragnar Sigbjörnsson, prófessor við Umhverfis- og byggingarverkfræðideild, væri á höttunum eftir doktorsnema í þessum fræðum sótti hann um starfið og fékk. Ragnar er jafnframt forstöðumaður Rannsóknarmiðstöðvar í jarðskjálftaverkfræði.

„Megintilgangur rannsóknar minnar er að þróa einfalt og áreiðanlegt stærðfræðilíkan," segir Rajesh. Með því ætti að vera hægt að spá fyrir um áhrif mögulegs jarðskjálfta á mismunandi mannvirki. Til þess þarf að þróa skilvirkari aðferðir og mæla áhrif kröftugri jarðskjálfta. Einnig þarf að þróa hreyfingarlíkön, kvarða spálíkön og að lokum samþætta líkönin þannig að þau nýtist til áframhaldandi rannsókna á jarðskjálftavá.

„Að undanförnu hef ég kannað varanlegar formbreytingar jarðskorpunnar í síðustu stóru jarðskjálftunum á Íslandi, þ.e. í jarðskjálftanum á Suðurlandi í júní árið 2000 og 29. maí 2008 í Ölfusi."

Rajesh segist stefna á að bæta og auka við núverandi þekkingu og aðferðir við gerð spálíkana fyrir yfirborðshröðun í jarðskjálftum. Hann hefur mikið unnið að því að fjarlægja suð og aðrar óviðkomandi bylgjur til að rannsóknagögn séu sem áreiðanlegust. Aðferðin sem hann hefur þróað hefur reynst vera stórt skref í þessa átt.

„Vonandi verða rannsóknir mínar þarft innlegg í jarðskjálftaverkfræðina á komandi árum." 

Rajesh hlaut doktorsnemastyrk úr Rannsóknasjóði 2007 og varði doktorsritgerð sína þann 13. ágúst 2010.

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is