Háskóli Íslands

Hver eru einkenni Íslendinga?

Gylfi Dalmann Aðalsteinsson, dósent í Viðskiptafræðideild

„Markmiðið með rannsókninni er að kortleggja þjóðmenningu og leita svara við spurningunni um hver séu megineinkenni
íslensku þjóðarinnar.“ Þetta segir Gylfi Dalmann Aðalsteinsson, dósent við Viðskiptafræðideild. Um allstóra rannsókn er að ræða hjá Gylfa sem hann vinnur að ásamt hópi rannsóknarmanna í samvinnu við Viðskiptafræðistofnun.

Til að leggja mat á þjóðmenningu okkar verður notuð þekkt aðferðafræði sem er kennd við Hofstede en hún hefur verið notuð til að varpa ljósi á þjóðmenningu ríkja heims,“ segir Gylfi. Í gagnagrunni Hofstedes er að finna upplýsingar um
þjóðmenningu yfir 70 landa en Ísland er ekki þar á meðal þar sem rannsókn á þessum nótum hefur ekki verið gerð hér áður. Svörum verður safnað með því að nota spurningalista og gögnin verða í framhaldinu hluti af gagnagrunni Hofstedes.

Gylfi segir það áhugavert að sjá hvort Íslendingar séu líkir frændum sínum á Norðurlöndum eða hvort þeir séu undir amerískum áhrifum eins oft hefur verið fullyrt.

Eitt efni rannsóknarinnar er einstaklingshyggja andspænis heildarhyggju að sögn Gylfa. „Í samfélögum þar sem einstaklingshyggja er ríkjandi er mikil áhersla lögð á frelsi einstaklingsins til athafna. Í samfélögum þar sem heildarhyggja er ráðandi tengist fólk hins vegar sterkum böndum og styður vel hvert við annað. Hagsmunir samfélagsins eru settir ofar hagsmunum einstaklinga,“ segir Gylfi.

Gylfi hefur á síðustu árum rannsakað, í félagi við Þórhall Örn Guðlaugsson, fyrirtækjamenningu íslenskra fyrirtækja sem hafa leitað út fyrir landsteinana. Í þeirra hópi eru Marel, Össur og Actavis. Kannað var hvort séríslensk menning sé til og hvort hún sé flutt út. „Árangur íslenskra fyrirtækja samkvæmt fyrirtækjamenningu byggist á því að við erum fámenn þjóð með hátt menntunarstig, mikið tengslanet, óformleg samskipti og stéttlaust starfsfólk,“ segir Gylfi .

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is