Háskóli Íslands

Íslensk þjóðkirkja og trúarlíf Vestur-Íslendinga

Móeiður Júníusdóttir, doktorsnemi í guðfræði við Guðfræðideild

Íslensk þjóðkirkja og trúarlíf Vestur-Íslendinga (Icelandic Church and Religious life among Icelandic Immigrants in North-America) er heiti á rannsóknarverkefni Móeiðar Júníusdóttur, doktorsnema við Guðfræði- og trúarbragðafræðideild Háskóla Íslands. Móeiður hlaut á dögunum styrk úr Sjóði Páls Guðmundssonar frá Rjúpnafelli til þess að heimsækja Manitoba-háskóla í Kanada en mikilvægar heimildir er meðal annars að finna þar á íslenska bókasafninu.

„Í forgrunni rannsóknarinnar eru tengsl gróskumikils trúarlífs hinna fjöldamörgu íslensku landnema sem settust að í Vesturheimi við þjóðkirkju Íslendinga á mótunartíma hennar og víxlverkan þar á milli. Rannsóknarverkefnið hverfist þannig um tvo menningarheima og hvernig þeir hvor um sig skilgreina sig og samsamast því sem kalla mætti íslenska kristni,“ segir Móeiður þegar hún er innt eftir meginviðfangsefni rannsóknarinnar.

„Ég ætla að beina sjónum mínum að þessu sjálfsskilgreiningarferli Vesturfaranna en það var markað talsverðum átökum og leiddi meðal annars af sér harða gagnrýni á kirkjulíf í gamla heimalandinu. Einnig mun ég leitast við að greina hvaða áhrif þessi gagnrýni hafði á mótun íslenskrar þjóðkirkju í lok 19. aldar en þáttur strauma og stefna frá Vesturheimi hefur lítið verið rannsakaður í þessu sambandi,“ bætir hún við.

Að sögn Móeiðar verður í rannsókninni annars vegar gengið út frá þjóðkirkjuhugtakinu í íslensku samhengi gamla og nýja heimsins. Hins vegar verður litið til klassísks skýringarlíkans Wills Herberg og Oscars Handlin sem varpar ljósi á það það hvers vegna trúarbrögð hafa mikla þýðingu í flestum innflytjendasamfélögum. „Markmiðið er að sýna hvernig kristileg hugmyndafræði Íslendinga, í pólitískum sem guðfræðilegum skilningi, féll í ólíkan jarðveg á íslenskri grund annars vegar og í Vesturheimi hins vegar og hvaða afleiðingar það hafði í för með sér,“ segir Móeiður.

Með því að skoða viðfangsefnið í ljósi tveggja menningarheima vonast Móeiður til þess að varpa nýju ljósi á mikilvægan mótunarþátt íslenskrar þjóðkirkju ásamt því sem kirkjusaga Íslendinga vestanhafs er dregin upp á nýstárlegan hátt. Ekki síst vonast hún til þess að í krafti slíks tvöfalds sjónarhorns fáist skýrari mynd af sérkennum íslenskrar kristni sem nýst getur sem gagnlegur „spegill“ í  samtímanum.

Móeiður lauk MA-prófi frá Guðfræði- og trúarbragðafræðideild Háskóla Íslands í febrúar árið 2010 og hóf doktorsnám við skólann á vormánuðum 2011. Rannsóknarverkefnið er hugsað sem samstarfs- og tengiverkefni milli Háskóla Íslands og Íslenskudeildar Háskólans í Manitoba í Winnipeg og mun heimildavinna fara fram bæði á Íslandi og vestra.

Tilgangur Sjóðs Páls Guðmundssonar frá Rjúpnafelli er að efla tengsl milli Háskóla Íslands og Háskólans í Manitoba í Kanada.

Leiðbeinandi: Pétur Pétursson, prófessor við Guðfræði- og trúarbragðafræðideild.

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is