Háskóli Íslands

Lækningarmáttur Bláa lónsins

Jenna Huld Eysteinsdóttir doktorsnemi við Læknadeild

Öll sú uppbygging sem hefur átt sér stað við Bláa lónið síðastliðin ár byggist á vísindalegum rannsóknum sem gerðar voru fyrir um 15 árum síðan. Þær leiddu í ljós lækningarmátt jarðsjávarins hjá psoriasissjúklingum með því að skoða klínísk áhrif meðferðarinnar á sjúklingana. Miklar framfarir hafa orðið síðan þá í rannsóknum á meinmyndun psoriasis og nýjar meðferðir hafa bæst við. Það er því mikilvægt að gera nýjar rannsóknir á áhrifum böðunar í lóninu, bæði til að staðfesta fyrri rannsóknir um lækningarmátt Bláa lónsins og til að skoða fleiri þætti sem hafa ekki verið rannsakaðir áður, segir Jenna Huld Eysteinsdóttir, doktorsnemi við Læknadeild.

Í doktorsverkefni sínu ber Jenna Huld meðferð í Bláa lóninu saman við hefðbundna UVB-ljósameðferð. Til að meta hversu áhrifarík meðferðin er fylgjumst við með árangrinum, hversu lengi hann varir og hvaða áhrif meðferðin hefur á lífsgæði sjúklinganna. Einnig gerum við viðamiklar ónæmisfræðilegar athuganir í blóði og á húð og margt fleira."

Jenna Huld segir niðurstöður klínískra og ónæmisfræðilegra forrannsókna lofa góðu. Ég hef því góðar væntingar til niðurstaðna þessarar rannsóknar. Psoriasis hrjáir um það bil 2% fólks í hinum vestræna heimi og má því ætla að það séu þó nokkuð margir Íslendingar sem kljást við þennan sjúkdóm. Ég vona að rannsóknin leiði til bættrar þjónustu við psoriasissjúklinga, ásamt því að bæta við þá þekkingu sem fyrir er varðandi meinmyndun sjúkdómsins og orsök hans. Kannski komumst við svo aðeins nær því hvað það er í jarðsjó Bláa lónsins sem hefur þennan lækningarmátt, það er aldrei að vita."

Leiðbeinandi: Jón Hjaltalín Ólafsson, dósent við Læknadeild. 

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is