Háskóli Íslands

Langvinn lungnateppa

Þórarinn Gíslason, prófessor við Læknadeild

“Líkur eru á vaxandi dánartíðni, sjúkleika og lyfjakostnaðar vegna langvinnrar lungnateppu á næstu árum og hefur verið áætlað að langvinn lungnateppa verði í þriðja sæti í heiminum árið 2020 og þá dánarorsök sex milljóna karla og kvenna,” segir Þórarinn Gíslason, prófessor við Læknadeild Háskóla Íslands og  yfirlæknir á lungnadeild Landspítala. Þórarinn flutti áhugavert erindi á ráðstefnu í líf- og heilbrigðisvísindum sem hann kallaði Langvinn lungnateppa á Íslandi. Algengur fjölkerfasjúkdómur. Ráðstefnan var haldin á vegum deilda og námsbrauta Heilbrigðisvísindasviðs, Miðstöðvar í lýðheilsuvísindum og Tilraunastöðvar Háskóla Íslands í meinafræði að Keldum.

“Enda þótt reykingar séu stærsti áhættuþáttur langvinnrar lungnateppu er ljóst að margt fleira skiptir máli varðandi líkur á fá sjúkdóminn; til dæmis ofnæmi og sýkingar í bernsku, holdafar og jafnvel umhverfismengun,” segir Þórarinn sem valinn var heiðursvísindamaður Landspítala árið 2010.

“Við höfum tekið þátt í að mæla ýmis bólguboðefni ásamt því að meta áhrif þeirra á öndunargetu. Ekki er lengur litið á langvinna lungnateppu sem einangraðan lungnasjúkdóm heldur sem fjölkerfasjúkdóm. Sjúklingar með langvinna lungnateppu eru oftar en aðrir með hjartasjúkdóma og sykursýki, en við þær aðstæður eru lífslíkur þeirra hvað lakastar,” segir
Þórarinn og bætir við að langvinn lungnateppa sé samheiti teppusjúkdóma í lungum; langvinnrar berkjubólgu, lungnaþembu og lokastigsastma.

Árið 2001 hófst alþjóðasamvinna um langvinna lungnateppu og í kjölfar þeirrar vinnu hefur hún verið skilgreind sem sjúkdómur sem einkennist af teppu í lungum sem ekki er að fullu afturkræf eftir gjöf berkjuvíkkandi lyfja.

“Rannsóknir á fjölskyldutengslum íslenskra sjúklinga með langvinna lungnateppu hafa sýnt auknar líkur á ættlægni. Astmi, einkum ef tengdur ofnæmi, meðal fullorðinna hefur í fyrri rannsóknum reynst fátíðari á Íslandi en í öðrum Evrópulöndum, en lítið hefur verið vitað um algengi langvinnrar lungnateppu á Íslandi,” segir Þórarinn.

Hann segir að fyrri alþjóðlegar rannsóknir á algengi langvinnrar lungnateppu hafa einnig sýnt mjög mismunandi niðurstöður enda hefur aðferðafræði þeirra verið ólík. Árin 2005 til 2006 tók Ísland þátt í fjölþjóðarannsókn (Burden of Obstructive Lung Disease (BOLD). Algengi langvinnrar lungnateppu reyndist þá svipað á Íslandi og hjá viðmiðunarþjóðum, að sögn Þórarins, eða 18% einstaklinga 40 ára og eldri. BOLD rannsóknin sýndi einnig að sögn Þórarins, að meðferð langvinnrar lungnateppu á Íslandi var ekki í samræmi við alþjóðlegar leiðbeiningar. “Bæði var fjöldi sjúklinga með langvinna lungnateppu ógreindur og ómeðhöndlaður, en einnig notaði umtalsverður fjöldi einstaklinga innöndunarlyf án þess að hafa farið í blásturspróf,” segir Þórarinn.  

Rannsóknasjóður hefur styrkt verkefnið.

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is