Háskóli Íslands

Lífvirk náttúruefni og lyfjasprotar

Elín Soffía Ólafsdóttir, prófessor við Lyfjafræðideild

„Rannsóknir mínar á sviði lyfja- og efnafræði náttúruefna undanfarin ár hafa verið margvíslegar en snúa allar að því að finna og rannsaka áhugaverð náttúruefni til lyfjagerðar, einkum úr lágplöntum og fléttum. Verkefnin hafa falið í sér víðtækt samstarf við kollega mína í Danmörku, eins og best má sjá á vísindagreinum sem við höfum skrifað saman,“ segir Elín Soffía Ólafsdóttir, prófessor í lyfja- og efnafræði náttúruefna við Lyfjafræðideild Háskóla Íslands. Elín Soffía hefur hlotið styrk úr Sjóði Selmu og Kays Langvads, sem er einn af styrktarsjóðum Háskólans, en tilgangur sjóðsins er að styrkja menningarleg tengsl Íslands og Danmerkur.

Elín Soffía hefur sérhæft sig í rannsóknum á lífvirkum náttúruefnum úr íslensku lífríki. Helstu verkefni hennar snúa að annars stigs efnum úr lágplöntum og fjölsykrum úr fléttum og cýanóbakteríum. Þessi náttúruefni hafa hlutverki að gegna í lífverunum og hafa fjölþætta lífvirkni.

„Að loknu doktorsnámi í Kaupmannahöfn 1991 fékk ég hlutastöðu sem lektor við Háskóla Íslands en fyrst árið 1995 fékk ég fulla stöðu og gat farið að vinna í að koma mér upp rannsóknaraðstöðu við skólann. Ég hef ræktað samstarfið við danska kollega mína við Kaupmannahafnarháskóla allar götur síðan ég var þar í námi og það hefur verið afar dýrmætt fyrir mig að njóta rannsóknaraðstöðu þar fyrir verkefnin, sérstaklega varðandi byggingargreiningar efna, s.s. lýkópódíumalkalóíða úr íslenskum jafnategundum og bis-bibenzýla og seskvíterpena úr soppmosum. Auk þess höfum við haft samstarf um virknimælingar náttúruefna gegn malaríusníklinum,“ segir Elín Soffía en hún hefur gegnt prófessorsstöðu við Lyfjafræðideild Háskóla Íslands frá árinu 2005. Hún hefur þrisvar dvalið á rannsóknamisserum sínum í Kaupmannahöfn undanfarin ár, tvisvar við Kaupmannahafnarháskóla, á árunum 2001 og 2004, og einu sinni við Carlsberg rannsóknarstofnunina (Carlsberg Laboratorium), árið 2010.

„Annað umfangsmikið verkefni sem við höfum unnið að í mörg ár eru rannsóknir á náttúrulegum fjölsykrum og virkni þeirra á ýmsa þætti ónæmiskerfisins. Fjölsykrur eru flóknar fjölliður, samsettar af fjölda einsykrueininga, og byggingargreining á þeim er nauðsynlegur þáttur í því að skilja sambandið á milli byggingar og verkunar. Við höfum haft mikið og gott samstarf við NMR-deild rannsóknastofu Carlsberg-ölgerðarinnar í Kaupmannahöfn um þessa greiningu, allt frá árinu 2001, og haft aðgang að öflugum 800 MHz kjarnsegulgreini í þeim tilgangi. Slíkt tæki er ekki til á Íslandi. Ég dvaldi hjá Carlsberg í fyrrahaust við byggingargreiningu og við erum að leggja síðustu hönd á greiningu fjölsykru úr cýanóbakteríunni Nostoc commune. Með samstarfsaðilum okkar í ónæmisfræðihluta rannsóknarinnar á Landspítala – háskólasjúkrahúsi, dr. Jónu Freysdóttur og kollegum hennar, höfum við sýnt fram á áhrif fjölsykra úr mörgum tegundum fléttna og cýanobaktería á angafrumur ónæmiskerfisins.“

Rannsóknir undangenginna ára hafa beint sjónum Elínar enn frekar að sambandinu á milli byggingar og verkunar lífvirkra náttúruefna og hvernig auka má líkur á því að finna virka lyfjasprota. Ein leið til þess er að rannsaka samvirkni efnanna og þeirra próteina sem þau verka á í hermilíkönum í tölvu, hanna afleidd efni sem hugsanlega hafa bætta virkni, smíða þau og virkniprófa. „Ég hef nýlega hafið nýtt samstarf við lyfjafræðideild Kaupmannahafnarháskóla sem byggist einmitt á slíkri nálgun. Í sumar mun doktorsnemi, sem hlaut nýverið styrk úr Háskólasjóði Eimskipafélagsins, hefja vinnu í þessu verkefni sem að hluta til fer fram í Kaupmannahöfn. Ég er því afar þakklát fyrir styrkinn, hann mun svo sannarlega efla samstarfið á milli landanna,“ segir Elín Soffía að lokum.

Sjóður Selmu og Kays Langvads var stofnaður árið 1964 af frú Selmu Langvad, fæddri Guðjohnsen, og Kay Langvad verkfræðingi í viðurkenningarskyni fyrir það mikilvæga hlutverk sem Ísland gegndi í lífi Kays og fjölskyldu hans. Tilgangur sjóðsins er að styrkja menningarleg tengsl Íslands og Danmerkur. Frekari upplýsingar um sjóðinn er að finna á heimasíðu hans á sjóðavef Háskóla Íslands, www.sjodir.hi.is.

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is