Háskóli Íslands

Markmið að koma í veg fyrir alkalískemmdir

Börge Johannes Wigum, jarðverkfræðingur

„Aðaltilgangur verkefnisins er að rannsaka þær breytur sem enn eru illa þekktar, til að fullþróa hraðvirkt og áreiðanlegt hæfnispróf fyrir steypu svo hægt sé að koma í veg fyrir skaðlega alkalívirkni eða alkalískemmdir,“ segir Börge Johannes Wigum, jarðverkfræðingur. Börge hlaut nýlega 6 milljón króna styrk úr Menningar- og framfarasjóði Ludvigs Storr til verkefnisins.

„Á undanförnum árum hefur verið lögð aukin áhersla á að þróa hæfnisprófanir til að kanna alkalívirkni, þ.e.a.s. prófuð er raunveruleg steypa á rannsóknastofu í stað staðlaðrar steypu. Þar sem ég er virkur í slíkum rannsóknum í Evrópu, fannst mér mjög mikilvægt að þróa þetta fyrir íslenska steypu,“ segir hann. Börge segir að alkalívirkni hafi verið mikill skaðvaldur í steypu á Íslandi. „Síðan ég kláraði doktorspróf um þetta málefni 1995, hefur mér fundist þetta spennandi viðfangsefni, þar sem þetta snýr bæði að jarðfræði og steyputækni. Niðurstöður hafa sýnt að þróun áreiðanlegra hæfnisprófa sem endurspegla raunveruleikann er komin vel á veg. Menn vænta þess að niðurstöður úr þessu verkefni, ásamt niðurstöðum úr yfirstandandi alþjóðlegum rannsóknum, muni leiða til staðlaðra hæfnisprófa innan fárra ára.“ Alkalívirkni var uppgötvuð fyrir rúmlega 60 árum og síðan þá hafa vísindamenn reynt að skilja þær breytur sem skipta máli við blöndun virkra fylliefna og sementsefju að sögn Börge. „Þetta hefur leitt til þúsunda rannsóknagreina og samtals 13 heimsráðstefna. Fyrir samfélagið í heild er mikilvægt að geta treyst á að framleidd verði endingargóð steypa þar sem fjárfestingar í steyptum mannvirkjum eru gríðarlegar.“

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is