Háskóli Íslands

Reiðitengdar tilfinningar unglingsstelpna

Esther Ösp Valdimarsdóttir, meistaranemi í mannfræði

Esther Ösp Valdimarsdóttir, meistaranemi í mannfræði við Háskóla Íslands, hlaut nýlega styrk úr Styrktarsjóði Margaretar og Bents Schevings Thorsteinssonar, til rannsóknarinnar Reiðar stelpur.

„Rannsóknin snýst um athugun þess hvort raunin sé að strákum sé almennt gefið breiðara svigrúm til að tjá reiðitengdar tilfinningar en stelpum. Notast verður við nýstárlega rannsóknaraðferð sem kallast gagnvirk þátttökuathugun (e. participatory action research), en henni hefur ekki verið beitt á Íslandi.“ Esther Ösp segir að kveikja rannsóknarinnar sé bók Sharon Lamb (2001) The secret lives of girls: What girls really do – Sex, play, aggression and their guilt. „Þar tekur hún viðtöl við ólíkar konur á ýmsum aldri, víðs vegar um Bandaríkin og kemst að því að allar eiga það sameiginlegt að hafa ekki fengið réttmæta útrás fyrir reiðitengdar tilfinningar í æsku. Allar konurnar og stúlkurnar upplifðu að þeim hafi ekki verið veitt nægilegt svigrúm og að um skammarlegar tilfinningar væri að ræða. Afleiðingin var sú að þær bældu tilfinningar sínar inni og fengu að lokum óréttmæta útrás fyrir hana, til dæmis með tilefnislausum ofsaköstum eða með valdbeitingu í samskiptum sem oft enduðu með einelti.“ Esther Ösp segir að umræða um bókina hafi vakið athygli hennar en hún var strax sannfærð um að eitthvað álíka ætti sér stað í íslensku samfélagi. „Hér eru strákar hvattir til að fá útrás og hafa læti í anda orðatiltækja á borð við „strákar verða alltaf strákar“ á meðan stelpum er uppálagt að vera stilltar og prúðar, með öðrum orðum „halda kjafti og vera sætar.““

Rannsókn Esther Aspar verður unnin sumarið 2012 og því liggja niðurstöður ekki fyrir. „Hins vegar tel ég víst að stelpurnar sem taki þátt í henni séu mér sammála um að þær séu ekki hvattar til að nýta reiði sína sér til eflingar. Þannig má vel vera að hér sé að finna eina útskýringu þess að unglingsstúlkur rjúki á ákveðnum aldri upp í tíðni þunglyndis, kvíða, átröskunar og sjálfspyntingarhvata á meðan hlutfall drengja stendur í stað. Eins tel ég að hér megi finna útskýringu á stórum hluta brotins samskiptamynsturs og dulins eineltis í stúlknahópum. Síðast en ekki síst er ekki ólíklegt að stelpur setji sér síður krefjandi markmið en strákar og fylgi þeim síður eftir þar sem þær öðlist ekki sambærilega færni í jákvæðri notkun reiði í formi markmiðssetningar og heilbrigðrar árásargirni. Þannig er þetta í raun jafnréttismál, en því verður vart náð fram þegar aðeins annað kynið er gert fært um að berjast fyrir markmiðum sínum, hugsjónum og að standa við mörk sín.“

Esther Ösp segir að rannsóknarþekking meðal unglinga aukist þegar unnið er með óhefðbundnar og nýstárlegar rannsóknaraðferðir. „Velferð ungmenna er hér höfð að leiðarljósi og felst ávinningurinn fyrst og fremst í því hvernig bæta megi tilfinningalegt heilbrigði unglingsstúlkna sem síðan hefur víðtæk jákvæð áhrif á þeirra umhverfi og framtíð. Einn útgangspunktur rannsóknaraðferðarinnar er að úr henni verði til afurð sem muni bæta samfélag viðfanganna til frambúðar. Þannig mun verða til einhvers konar fræðsluefni fyrir ungmenni, foreldra eða starfsfólk mennta- og tómstundastofnanna sem er síðan ætlað að hafa forvarnargildi til frambúðar.“ Esther Ösp segir styrkveitingu úr sjóði Margaretar og Bents Schevings Thorsteinssonar mikinn heiður og ómissandi stuðning við rannsókn sína.

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is