Tilgangur sjóðsins er að styrkja samning og útgáfu íslenskrar samheitaorðabókar, rímorðabókar og íslenskrar stílfræði, svo og að styrkja endursamningu og endurútgáfu nefndra bóka meðan sjóðurinn endist. Við úthlutun úr sjóðnum skal samheitorðabók sitja í fyrirrúmi.
Styrk úr sjóðnum skal aðeins veita manni eða mönnum, sem hafa kynnt sér rækilega samningu bóka ofangreindra tegunda erlendis og eru óumdeildanlega verkinu vaxnir að því er snertir þekkingu, verkhæfni og innræti.
Sjóðurinn er stofnaður árið 1970 af Þórbergi Þórðarsyni rithöfundi og Margréti Jónsdóttur, konu hans.
Þórbergur Þórðarson fæddist á Hala í Suðursveit 12. mars árið 1888. Átján ára hélt hann til Reykjavíkur, var kokkur á skútu í þrjú ár en tók svo til við nám í Kennaraskólanum, Menntaskólanum í Reykjavík og Háskóla Íslands, reyndi næsta áratug að sjá sér farborða með íhlaupavinnu – en gekk misvel. Hann gerði sér vonir um að fá að ljúka háskólaprófi í íslenskum fræðum árið 1919 en fékk ekki leyfi til þess þar eð hann hafði ekki lokið stúdentsprófi. Árið 1917 fékk Þórbergur styrk til orðasöfnunar frá Alþingi en var 1919 ráðinn kennari við Iðnskólann og þar með urðu umskipti á lífi hans. Þórbergur eignaðist árið 1924 dótturina Guðbjörgu með Sólrúnu Jónsdóttur en giftist Margréti Jónsdóttur 1932 og bjó með henni til dauðadags, 12. nóvember 1974. Enda þótt Þórbergur gæfi út tvær ljóðabækur á námsárum sínum undir nafninu Styr stofuglam vakti hann ekki umtalsverða athygli sem rithöfundur fyrr en með Bréfi til Láru árið 1924. Af fræðiverkum hans má nefna bókina Um alþjóðamál og málleysur (1933) og ritgerðina „Einum kennt, öðrum bent“ (1944) .
Sjóðurinn starfar samkvæmt staðfestri skipulagsskrá og hefur sjálfstæða stjórn.
Stjórn sjóðsins skipa:
- Guðrún Kvaran, formaður stjórnar
- Guðrún Nordal
- Bergljót Kristjánsdóttir
Staðfest skipulagsskrá (.pdf).
Íslensk stílfræði, ritdómar, blaðaúrklippur.
Ljósrit af upphaflegum reglum um stílverðlaunin (.pdf).