Afreks- og hvatningarsjóður stúdenta Háskóla Íslands styrkir afburðanemendur til náms við skólann ár hvert. Styrkir eru veittir til framhaldsskólanema sem ná afburðaárangri á stúdentsprófi og innritast í Háskóla Íslands. Við úthlutun er einnig leitast við að styrkja nemendur sem sýnt hafa sérstakar framfarir í námi sínu eða náð góðum námsárangri þrátt fyrir erfiðar aðstæður.
Afreks- og hvatningarsjóður stúdenta Háskóla Íslands var stofnaður árið 2008. Frá upphafi hafa hátt í 300 nýnemar við Háskólann hlotið styrki úr sjóðnum. Þann 25. júní 2019 var úthlutað úr sjóðnum í tólfta sinn. Sjá frétt um úthlutun ársins 2020.
Sérstakir áhersluþættir
Árið 2020 var lögð sérstök áhersla á að styrkja þá nemendur sem sækja um kennaranám eða annað nám í menntavísindum og eins þá nemendur sem hafa íslensku sem annað mál.
Upphæð styrks
Hver styrkur er að fjárhæð 300.000 kr. auk 75.000 kr. til endurgreiðslu á skrásetningargjaldi við Háskóla Íslands. Styrkhafar fá styrkinn greiddan fljótlega eftir að nám við skólann hefst.
Hverjir geta sótt um?
Nýnemar við Háskóla Íslands, innritaðir í nám á haustönn úthlutunarárs, geta sótt um styrkinn.
Umsóknarfrestur fyrir skólaárið 2020-2021 var 15. júní 2020.
Viðtöl við fyrrverandi styrkþega
Skilyrði styrkveitingar
Við val á styrkhöfum er tekið mið af framúrskarandi námsárangri á stúdentsprófi. Einnig er horft til virkni í félagsstörfum og árangurs stúdenta á öðrum sviðum, s.s. í listum og íþróttum.
Í umsókn skal koma fram, auk almennra upplýsinga um umsækjanda:
• greinargóð lýsing á námsferli
• stutt umfjöllun um annað sem umsækjandi hefur tekið sér fyrir hendur og telur að skipti máli
• lýsing á framtíðaráformum
Með umsókn þurfa að fylgja:
• stúdentsprófsskírteini
• meðmælabréf
• staðfesting á virkni í félagsstörfum, sérstökum aðstæðum og/eða árangri á öðrum sviðum
Vönduð vinnubrögð og skýr framsetning á upplýsingum auðveldar mat stjórnar á umsóknum. Umsóknir án fylgigagna koma ekki til greina við val stjórnar á styrkhafa.
Stjórn sjóðsins
Guðbjörg Vilhjálmsdóttir, prófessor á Félagsvísindasviði
Steinunn Gestsdóttir, prófessor á Heilbrigðisvísindasviði
Ólafur Pétur Pálsson, prófessor á Verkfræði- og náttúruvísindasviði
Frekari upplýsingar um styrkinn veitir Kolbrún Einarsdóttir; kei@hi.is.