Háskóli Íslands

20 milljónum úthlutað

Menningar- og framfarasjóður Ludvigs Storr úthlutar 20 milljónum

Stjórn Menningar- og framfarasjóðs Ludvigs Storr úthlutar í dag styrkjum til sex einstaklinga og fimm verkefna. Styrkirnir nema samtals 20 milljónum króna. Sjóðurinn úthlutaði síðast styrkjum árið 2007 en í ár er úthlutunin sérlega vegleg í tilefni aldarafmælis Háskóla Íslands og þrjátíu ára afmælis sjóðsins.

Tilgangur sjóðsins er að stuðla að framförum á sviði jarðefnafræða, byggingariðnaðar og skipasmíða með því að styrkja vísindamenn á sviði jarðefnafræða, verkfræðinga, arkitekta, tæknifræðinga og iðnaðarmenn til framhaldsnáms. Styrkir eru einnig veittir til rannsókna á hagnýtum úrlausnarefnum í þessum greinum.

Styrkhafar í ár eru Aldís Sigfúsdóttir ráðgjafarverkfræðingur, Birgir Jónsson, dósent við Umhverfis- og byggingarverkfræðideild Háskóla Íslands, Börge Johannes Wigum jarðverkfræðingur, Haukur Jörundur Eiríksson, verkfræðingur og aðjunkt við Umhverfis- og byggingarverkfræðideild Háskóla Íslands, Ragnar Sigbjörnsson, prófessor við Rannsóknamiðstöð í jarðskjálftaverkfræði, og Sigurður Erlingsson, prófessor við Umhverfis- og byggingarverkfræðideild Háskóla Íslands.

Með rannsókn Aldísar og Ragnars, Áhrif jarðskjálfta á niðurgrafnar lagnir – Könnun á skemmdum frárennslislögnum í Hveragerði, er ætlunin að tengja saman upplýsingar um jarðskjálftaskemmdir niðurgrafinna lagna og kennistærðir yfirborðshreyfinga jarðskjálfta. Rannsóknin er byggð á mælingum yfirborðshreyfinga jarðskjálftans á Suðurlandi 2008 á ýmsum stöðum í Hveragerði og því tjóni sem jarðskjálftinn olli á niðurgröfnum lögnum. Þess er vænst að niðurstöður verkefnisins leiði til aukins öryggis lagnakerfa og þess að jarðskjálftaskemmdir verði sem minnstar í framtíðinni.

Haukur fær styrk til doktorsverkefnis síns, Hegðun skerveggjabygginga á höfuðborgarsvæðinu í jarðskjálfta. Þar hyggst hann greina hegðun skerveggja í jarðskjálfta og rannsaka hana frekar með verklegum tilraunum en skerveggir eru burðarveggir bygginga sem tryggja stöðugleika þeirra í jarðskjálfta. Hann hyggst einnig þróa og betrumbæta reikniaðferðir og tölvulíkön sem lýsa hegðun skerveggja og nota niðurstöðurnar til að greina burðarþol dæmigerðra bygginga á höfuðborgarsvæðinu gagnvart jarðskjálftaálagi.

Aðaltilgangur Börges með verkefni sínu, Hæfnisprófanir fyrir alkalívirkni steypu, er að útvega frekari upplýsingar um þær breytur sem enn eru illa þekktar til að virkja hraðvirkt og áreiðanlegt hæfnispróf fyrir steypu, eins og hita- og rakastig. Með því megi koma í veg fyrir skaðlega alkalívirkni eða alkalískemmdir. Verkefnið snýst um að meta hvernig mismunandi geymsluaðstæður prófsýna, steinefni, sementstegundir og steypublöndur hafa áhrif á alkalívirkni.

Í rannsóknarhugmynd Sigurðar, Greiningaraðferðir við veghönnun, felst ný aðferð til að hanna vegi. Hún gefur hönnuðum kleift að sjá fyrir hvernig einstök lög vegbyggingar brotna niður á löngum tíma. Í rannsókninni er þrýstingur í einstökum lögum vegbyggingarinnar reiknaður út frá umferðarálagi. Tekið verður tillit til norðlægra og þar með íslenskra aðstæðna, bæði hvað varðar efnisframboð og veðurfar.

Verkefni Birgis ber heitið Notkun jarðgangamulnings og basaltösku sem fylliefnis í þjappaða þurrsteypu (RCC-steypu) í stíflur og inntaksmannvirki. Það fjallar um, eins og nafnið bendir til, möguleika á að nýta basaltösku og jarðgangamulning úr basalti og móbergi sem svokallað RCC-fylliefni. Hingað til hafa lítil not verið fyrir basaltösku eða móbergsmulning þar sem þessi jarðefni henta ekki í hefðbundnar jarðstíflur eða steypu.

Um sjóðinn

Menningar- og framfarsjóður Ludvigs Storr var stofnaður árið 1980 af Svövu Storr, seinni konu Ludvigs Storr, og einkadóttur hans frá fyrra hjónabandi, Önnu Dúfu Storr Pitt. Ludvig Storr var fæddur í Kaupmannahöfn 21. október 1897. Að loknu verslunarprófi starfaði hann í glerfyrirtæki foreldra sinna en árið 1922 settist hann að á Íslandi. Hann stofnaði byggingarvöruverslun Ludvigs Storr & Co. sem varð að Glerslípun og speglagerð hf. árið 1937 og var með umsvifamikinn rekstur hér á landi. Ludvig Storr lét til sín taka í félagsmálum og starfaði í ýmsum félagsskap Dana hér á Íslandi. Hann var aðalræðismaður Dana á Íslandi frá árinu 1956 til dauðadags 1979. Auk þess var hann meðstofnandi Rótarý á Íslandi. Meðal áhugamála hans var endurreisn Skálholtsstaðar og eru kirkjugluggar og fleiri listmunir í kirkjunni gjöf frá fjölskyldu hans.
 

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is