Háskóli Íslands

Áhrif andlegrar líðanar kvenna á meðgöngu og fæðingu

Upplifa barnshafandi konur, sem glíma við þunglyndi og kvíða, fremur vandamál sem tengjast meðgöngu og fæðingu en þær sem ekki kljást við andlega kvilla? Þessu hyggst Sigríður Sía Jónsdóttir, lektor við Háskólann á Akureyri svara í doktorsrannsókn sinni sem hlotið hefur styrk úr úr Minningarsjóði Bjargar Magnúsdóttur ljósmóður og Magnúsar Jónassonar bónda við Háskóla Íslands.  Styrkupphæðin nemur einni milljón króna.

Sigríður var jafnframt stundakennari í ljósmóðurfræði við Háskóla Íslands en leggur nú stund á doktorsnám við Linné-háskóla í Svíþjóð. Markmið doktorsrannsóknarinnar er að kanna andlega líðan kvenna á meðgöngu og áhrif hennar á meðgöngu og fæðingu. Ætlunin er að meta hvort barnshafandi konur, sem stríða við þunglyndi og kvíða, upplifi frekar vandamál sem tengjast meðgöngu og fæðingu en þær sem ekki glíma við slíka sjúkdóma. Einnig verða metin áhrif félagslegs stuðnings og aðlögunar í nánu sambandi á líðan kvennanna.

Rannsóknin byggist á gögnum úr stærri rannsókn  „Geðheilsa kvenna og barneignir“ sem safnað var á árunum  2006 – 2012 en alls tóku 2500 barnshafandi konur þátt í henni. Vonast er til að niðurstöður rannsóknarinnar varpi frekara ljósi á mikilvægi þess að kanna geðheilsu kvenna á meðgöngu og að þær muni nýtast við  þróun þjónustu fyrir fjölskyldur á meðgöngu. Leiðbeinendur Sigríðar eru Dr. Katarina Swahnberg,  Marga Thome, prófessor emeritus, og Þóra Steingrímsdóttir, klínískur dósent við Háskóla Íslands.

Sigríður hefur þegar kannað hvort þátttakendur  glímdu við þunglyndi og kvíða og svöruðu konurnar jafnframt spurningalistum sem meta sálfélagslega þætti. Í framhaldi af því voru tekin stöðluð viðtöl við 560 konur sem annars vegar tilheyrðu hópi, sem taldist  með auknar líkur á þunglyndi eða kvíða, og hins vegar samanburðarhópi, sem ekki hefur átt við geðræn vandamál að stríða. Í viðtölunum var geðheilsa metin með viðurkenndum greiningaraðferðum.  

Þetta er í annað sinn sem styrkur er veittur úr Minningarsjóði Bjargar Magnúsdóttur ljósmóður og Magnúsar Jónassonar bónda en markmið hans er að  styrkja hjúkrunarfræðinga og ljósmæður til framhaldsnáms. Styrkupphæðin nemur einni milljón króna. Sjóðurinn var stofnaður við Háskóla Íslands 22. desember 2008 samkvæmt fyrirmælum í erfðaskrá Soffíu Þuríðar Magnúsdóttur til minningar um foreldra hennar, Björgu Magnúsdóttur ljósmóður og Magnús Jónasson bónda sem bjuggu allan sinn búskap í Túngarði á Fellsströnd. Björg var þar umdæmisljósmóðir árabilið 1910-1951.

Styrktarsjóðir Háskóla Íslands hafa umsjón með sjóðum og gjöfum sem Háskóla Íslands hafa verið ánafnaðar allt frá stofnun hans. Flestir þeirra starfa samkvæmt staðfestri skipulagsskrá og er þeim ætlað að styðja ýmis verkefni á ákveðnum fræðasviðum til hagsældar fyrir Háskóla Íslands, stúdenta eða starfsfólk.
 

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is