Háskóli Íslands

Almanakssjóður styrkir útgáfu Raustar

Styrkur hefur verið veittur úr Almanakssjóði til útgáfu Raustar, tímarits um raunvísindi og stærðfræði. Raust er gefið út af fjórum fræðafélögum, Íslenska stærðfræðafélaginu, Eðlisfræðifélagi Íslands, Efnafræðifélagi Íslands og Stjarnvísindafélagi Íslands. Markmið tímaritsins er að efla áhuga á raunvísindum og stærðfræði á Íslandi.

Aðstandendum tímaritsins var úthlutað 500.000 krónum úr sjóðnum en eitt af meginmarkmiðum Almanakssjóðs er að styðja rannsóknir á stjarnfræði og rímfræði, stærðfræði og stærðfræðilegri eðlisfræði sem og styðja útgáfu vísindalegra rita í þessum fræðum.
Tímaritið er ætlað áhugamönnum og sérfræðingum en ekki síst kennurum og nemendum. Stefna ritstjórnar er að birta fjölbreytilegt efni á öllum fræðasviðum félaga sem að ritinu standa. Má þar nefna almennar greinar um vísindi og samfélag, sögu vísindanna, fréttir af rannsóknum, nýleg verðlaun, óleyst vandamál, frægar tilgátur, kennslumál, áhugavert efni sem kennarar hafa hnotið um í starfi sínu, kynningar á nýlegum meistara- og doktorsverkefnum, yfirlitsgreinar um einstök fræðasvið, rannsóknaniðurstöður og fleira.

Í ritstjórn tímaritsins sitja Ari Ólafsson, formaður, frá Eðlisfræðifélaginu, Gunnlaugur Björnsson frá Stjarnvísindafélaginu, Stefán Ingi Valdimarsson frá Stærðfræðafélaginu og Ingvar Árnason frá Efnafræðifélaginu. Ritnefnd annast faglegt mat á innsendum greinum. Hana skipa, auk ritstjórnar, Jón Tómas Guðmundsson og Lárus Thorlacius frá Eðlisfræðifélaginu, Ágúst Kvaran og Baldur Símonarson frá Efnafræðifélaginu og Ragnar Sigurðsson, Jón I. Magnússon og Sven Þ. Sigurðsson frá Stærðfræðafélaginu

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is