Háskóli Íslands

Á andlegur innblástur við í listsköpun nútímans?

Rannsókn sem miðar að því að kanna hvort andlegur innblástur eigi við í nútímanum í sköpun lista og þá með hvaða hætti hlaut styrk á dögunum úr Styrktarsjóði Erlendar Haraldssonar. Styrkhafi er Melkorka Edda Freysteinsdóttir sem vann að meistaraverkefni í list- og verkgreinum á Menntavísindasviði Háskóla Íslands. Styrkupphæðin er 150.000 krónur.
 
Tilgangur Styrktarsjóðs Erlendar Haraldssonar er að styrkja rannsóknir á dulrænum fyrirbærum og meintri dulrænni reynslu í anda þeirra rannsókna sem Erlendur Haraldsson, stofnandi sjóðsins, sinnti á starfsferli sínum. 
 
Rannsóknin ber heitið Þegar andinn er yfir, raddir listamanna um sköpun, lífssýn og andlegan innblástur. Melkorka kannaði hvort að andlegur innblástur eigi við í nútímanum og þá með hvað hætti. Hún vann rannsókn í anda eigindlegra aðferða og tók viðtöl við sjö íslenska listamenn sem að komu fram undir eigin nafni. Melkorka ræddi einungis við listamenn sem vitað er að leggja rækt við andann á einn eða annan hátt. Markmið rannsóknarinnar var að kanna reynsluheim og lífssýn listamanna í samtímanum og þá hvort megi nýta þekkingu þeirra í þjóðfélaginu. 
 
Niðurstöður sýna að listamennirnir upplifa ekki einungis andlegan innblástur heldur nota sérstakar aðferðir til þess að komast í tengingu við æðri svið en hver og einn listamaður upplifir hana á sinn máta. Listamennirnir búa yfir sínum einstaka hugarheimi þar sem ýmis dulræn fyrirbæri geta komið fyrir, svo sem samband við verur af öðrum víddum og minningar úr fyrri lífum.
 
Styrktarsjóður Erlendar Haraldssonar var stofnaður árið 2007 af dr. Erlendi Haraldssyni, sálfræðingi og prófessor við Háskóla Íslands frá 1974 til 1999. Hann kenndi lengstum námskeið um tilraunasálfræði, sálfræðileg próf og aðferðafræði og var mikilvirkur rannsóknarmaður eins og  ritskrá hans vitnar um. Stór hluti rannsókna Erlendar fjallar á einn eða annan hátt um svonefnd dulræn fyrirbæri eða meinta dulræna reynslu (tilraunir, kannanir og vettvangsrannsóknir). Áður höfðu þeir Ágúst H. Bjarnason, prófessor við Heimspekideild, Guðmundur Hannesson, prófessor við Læknadeild, og Haraldur Níelsson, prófessor við Guðfræðideild, sinnt slíkum rannsóknum við Háskóla Íslands
 
Styrktarsjóðir Háskóla Íslands hafa umsjón með sjóðum og gjöfum sem Háskóla Íslands hafa verið ánafnaðar allt frá stofnun hans. Flestir þeirra starfa samkvæmt staðfestri skipulagsskrá og er þeim ætlað að styðja ýmis verkefni á ákveðnum fræðasviðum til hagsældar fyrir Háskóla Íslands, stúdenta eða starfsfólk. 
 
Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is