Háskóli Íslands

Á annan tug milljóna til eflingar íslenskri tungu

Níu styrkir hafa verið veittir úr Styrktarsjóði Áslaugar Hafliðadóttur til verkefna sem öll miða að því að efla íslenska tungu á tímum hraðra tæknibreytinga. Styrkirnir renna til fræðimanna og nemenda við Háskóla Íslands sem vinna að fjölbreyttum rannsóknum og verkefnum sem snúa að stöðu íslenskrar tungu í samtímanum. Þetta er í fimmta skipti sem úthlutað er úr sjóðnum og nemur heildarupphæð styrkjanna 13.150.000 kr.
 
Styrktarsjóður Áslaugar Hafliðadóttur var stofnaður við Háskóla Íslands árið 2014 til minningar um Áslaugu Hafliðadóttur og foreldra hennar, þau Sesselju Eiríksdóttur og Hafliða Jón Hafliðason. Meginmarkmið sjóðsins er að efla íslenska tungu með styrkjum til sérverkefna á sviði íslenskra fræða.
 
Styrkjum var að þessu sinni úthlutað til eftirfarandi eftirtalinna fræðimanna og nemenda:
 
 
Branislav Bédi, verkefnisstjóri hjá Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum (SÁM), hlýtur styrk til að vinna að Íslensk-þýskri orðabók, LEXÍU. Orðabókin er unnin í samstarfi við Háskólann í Vínarborg og verður ókeypis og öllum aðgengileg á vefnum. Markhópar verða íslenskunemar í þýskumælandi löndum og nemendur og kennarar á öllum skólastigum, ásamt þýðendum og túlkum milli málanna tveggja.
 
Marinella Arnórsdóttir, meistaranemi í ritlist við Íslensku- og menningardeild Hugvísindasviðs, hlýtur fyrir hönd Blekfjelagsins, félags meistaranema í ritlist, og meistaranema í hagnýtri ritstjórn og útgáfu við sömu deild, styrk til útgáfu smásagnasafnsins „Möndulhalli“. Bókin kom út í lok maí hjá Unu útgáfuhúsi. Verkefnið var unnið í áfanganum „Á þrykk“ sem er kenndur á framhaldsstigi í Íslensku- og menningardeild Háskóla Íslands. Tíu ritlistarnemar unnu smásögur í anda þema áfangans sem var „á skjön“. Sex nemar í Hagnýtri ritstjórn og útgáfu sáu um ritstýringu bókarinnar.
 
Baldur Sigurðsson, dósent í íslensku á Menntavísindasviði, fær styrk fyrir hönd Íðorðanefndar í menntunarfræði til að vinna að söfnun og skilgreiningu íðorða í menntunarfræði og birtingu þeirra í Íðorðabanka Stofnunar Árna Magnússonar. Menntunarfræði fæst við þroska barna og unglinga, uppeldi og skólastarf í víðasta skilningi. Um er ræða tiltölulega unga en ört vaxandi fræðigrein hér á landi og viðfangsefni hennar koma öllum við. Þess vegna þurfa allir, fræðimenn, kennarar og almenningur, að geta talað um viðfangsefni fræðanna af skilningi og nákvæmni.
 
Emily Lethbridge og Aðalsteinn Hákonarson á nafnfræðisviði Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum hlutu styrk til að vinna að skráningu örnefnalýsinga sem gerðar verða aðgengilegar í gegnum nýjan gagnagrunn, Nafnið.is. Með þróun þessara innviða verður bylting í aðgengi að gögnum um íslensk örnefni. Mörg tækifæri munu skapast fyrir fræðimenn á ýmsum sviðum m.a. til að greina örnefni og nýta sér upplýsingar í örnefnalýsingum. Einnig má vænta þess að verkefnið glæði áhuga og auki þekkingu á örnefnum víðar í samfélaginu en örnefni eru mikilvæg í menningarlegu og málsögulegu samhengi. Stefnt er að því að opna Nafnið.is haustið 2020.
 
Ásdís Rósa Magnúsdóttir, prófessor í frönsku máli og bókmenntum við Mála- og menningardeild Hugvísindasviðs, hlaut styrk til að vinna verkefnið „Forsetningar í íslensk-franskri veforðabók“. Markmið með verkefninu er að vinna flettur sem lúta að forsetningum og notkun þeirra í LEXÍU, nýrri íslensk-franskri veforðabók sem er í smíðum hjá Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum í samstarfi við Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum. Fjöldi notkunardæma fyrir íslenskar forsetningar er til staðar í orðagrunninum og verða þau öll þýdd á frönsku til þess að veforðabókin komi að sem bestum notum og stuðli að réttum skilningi.
 
Hrafnhildur Hanna Ragnarsdóttir, prófessor emerita í þroska- og sálmálvísindum, hlýtur styrk til að ljúka rannsókninni „Þróun færni í töluðu máli og rituðu frá miðbernsku til fullorðinsára“ og draga niðurstöður hennar saman í bók. Markmið rannsóknarinnar er að kortleggja þróun málnotkunar í frásögnum annars vegar og hlutlægum greinargerðum hins vegar þar sem ritmál og talmál eru borin saman. Áttatíu textahöfundar, 11, 14 og 17 ára og fullorðnir, fengu sömu kveikju og sömdu fjóra texta hver. Úrvinnsla beindist að orðaforða og orðatiltækjum, málfræði, samloðun, textabyggingu o.m.fl. Auk fræðilegs gildis rannsóknarinnar og nýrrar þekkingar á því hvernig Íslendingar á ólíkum aldri beita móðurmálinu til að tjá flókna hugsun við „eðlilegar“ aðstæður, nýtast niðurstöður væntanlega við mat á textafærni á ólíkum aldursskeiðum og þróun kennsluaðferða sem tryggja að hún verði sem mest og best.
 
Romina Werth, doktorsnemi í íslenskum bókmenntum við Íslensku- og menningardeild Hugvísindasviðs, og Jón Karl Helgason, prófessor í íslensku sem öðru máli við Íslensku- og menningardeild Hugvísindasviðs, hljóta styrk fyrir kennslubók um íslenskar þjóðsögur og þjóðsagnaarf sem er ætluð nemendum á framhalds- og háskólastigi, meðal annars þeim sem hafa íslensku sem annað mál. Bókin, sem ber titilinn Andlit á glugga, er úrval af sextíu þjóðsögum og ævintýrum með ítarlegum orðskýringum á íslensku, auk þess sem fræðileg umfjöllun er um hvern þjóðsagnaflokk og ítarlegur inngangskafli. Markmið verkefnisins er að opna heim þjóðsagnanna og þar með efnislegan og menningarlegan veruleika íslenska sveitasamfélagsins, fyrir nýjum kynslóðum.
 
Kristján Rúnarsson máltæknisérfræðingur hlýtur styrk til að vinna að Tónlistarorðasafni. Um er að ræða íðorðasafn þar sem gerð verður ítarleg grein fyrir tónlistarorðum á íslensku með skýringum og þýðingum yfir á helstu tungumál tónlistarinnar, ítölsku, þýsku, frönsku og ensku. Orðasafnið mun ná yfir sem mest af þeim sértæka orðaforða sem tónlistarmenn, tónlistarfræðingar og tónlistarunnendur nota. Markmið þess er að almenningur og allir sem starfa við tónlist eða fjalla um hana í ræðu og riti hafi aðgang að sem flestum þeirra tónlistarorða sem eru í notkun í íslensku máli og geti glöggvað sig á merkingu þeirra og fundið rétta þýðingu orða milli íslensku og þeirra mála sem eru algeng í tónlist.
 
Björn Þór Vilhjálmsson, lektor við Íslensku- og menningardeild Hugvísindasviðs, fær styrk til rannsóknarinnar „Myndvísir – stafræn þekkingarveita á sviði kennslu og rannsókna í kvikmyndafræði“. Aðeins lítill hluti þess orðasafns sem notast er við þegar einstaklingar tjá sig um kvikmyndir og kvikmyndatengd efni, jafnt í daglegu máli og innan fræðasamfélagsins, hefur verið til á íslensku. Á vegum kvikmyndafræðinnar hefur hins vegar staðið yfir þýðingarvinna þar sem leitast er við að byggja upp hugtakasafn á þessu sviði. Lykilmarkmið er að nýta tækifæri stafrænna hugvísinda til að efla þýðingarvinnuna og nýta kosti netsins, ekki síst með gagnvirkni í huga, virkjun þvermiðlalegrar framsetningar (nota myndefni á borð við stillur, atriði úr kvikmyndum, hjóðdæmi, o.s.frv.), og sískrifum, því ólíkt prentverki er texti á netinu aldrei í endanlegu formi.
 
Stutt við verkefni sem lúta að ritfærni og þjálfun nemenda
Áslaug Hafliðadóttir arfleiddi Háskóla Íslands að stórum hluta eigna sinna, samanlagt um 120 milljónum króna. Samkvæmt erfðaskrá Áslaugar skyldu fjármunirnir nýttir til að efla íslenska tungu og það skilyrði var sett að sjóðurinn yrði notaður til sérverkefna á sviði íslenskra fræða eða til stuðnings við þá sem leggja stund á íslensk fræði. Styrkir standa bæði starfsmönnum og nemendum Háskóla Íslands til boða, m.a. til rannsókna, þróunar, kennslu, þjálfunar, nýmæla eða kaupa á tækjum og búnaði sem falla að markmiðum sjóðsins. Í stofnskrá sjóðsins segir að sérstaklega skuli stutt við verkefni sem lúta að ritfærni og þjálfun nemenda á öllum fræðasviðum háskólans við beitingu íslensks máls og styrkja stöðu íslenskunnar í síbreytilegu tækniumhverfi. Sjóðurinn starfar samkvæmt staðfestri skipulagsskrá og hefur sjálfstætt starfandi stjórn. Í stjórn sjóðsins sitja Börkur Hansen, prófessor við Menntavísindasvið, sem jafnframt er formaður stjórnar, Viðar Guðmundsson, prófessor við Verkfræði- og náttúruvísindasvið, og Auður Ava Ólafsdóttir rithöfundur.
 
Styrktarsjóður Áslaugar Hafliðadóttur er í umsjá og vörslu Styrktarsjóða Háskóla Íslands og fellur undir sjóði sem lúta yfirstjórn háskólans. Styrktarsjóðir Háskóla Íslands hafa umsjón með sjóðum og gjöfum sem Háskóla Íslands hafa verið ánafnaðar allt frá stofnun hans.
Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is