Ellefu styrkir hafa verið veittir úr Styrktarsjóði Áslaugar Hafliðadóttur til verkefna sem öll miða að því að efla íslenska tungu á tímum hraðra tæknibreytinga. Styrkirnir renna til fræðimanna og nemenda við Háskóla Íslands sem vinna að fjölbreyttum rannsóknum og verkefnum sem snúa að stöðu íslenskrar tungu í samtímanum. Þetta er í fimmta skipti sem úthlutað er úr sjóðnum og nemur heildarupphæð styrkjanna 14.400.000 kr.
Styrktarsjóður Áslaugar Hafliðadóttur var stofnaður við Háskóla Íslands árið 2014 til minningar um Áslaugu Hafliðadóttur og foreldra hennar, þau Sesselju Eiríksdóttur og Hafliða Jón Hafliðason. Meginmarkmið sjóðsins er að efla íslenska tungu með styrkjum til sérverkefna á sviði íslenskra fræða.
Styrkjum var að þessu sinni úthlutað til eftirtalinna fræðimanna og nemenda:
Branislav Bédi, verkefnisstjóri hjá Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum (SÁM), hlýtur framhaldsstyrk til að vinna að Íslensk-þýskri orðabók, LEXÍU. Orðabókin er unnin í samstarfi við Háskólann í Vínarborg og verður ókeypis og öllum aðgengileg á vefnum. Markhópar verða íslenskunemar í þýskumælandi löndum og nemendur og kennarar á öllum skólastigum, ásamt þýðendum og túlkum milli málanna tveggja.
Birna Hjaltadóttir, meistaranemi í ritlist við Íslensku- og menningardeild Hugvísindasviðs, hlýtur styrk fyrir hönd Blekfjelagsins, félags meistaranema í ritlist, og meistaranema í hagnýtri ritstjórn og útgáfu við sömu deild, til útgáfu smásagnasafnsins „Þægindarammi”. Verkefnið er unnið í áfanganum „Á þrykk“ sem kenndur er á framhaldsstigi við Íslensku- og menningardeild Háskóla Íslands. Þar leiða saman hesta sína fjórir meistaranemar í hagnýtri ritstjórn og útgáfu og sextán meistaranemar í ritlist. Bókin kemur út í lok maí hjá Unu útgáfuhúsi.
Baldur Sigurðsson, dósent í íslensku á Menntavísindasviði, fær framhaldsstyrk fyrir hönd Íðorðanefndar í menntunarfræði til að vinna að söfnun og skilgreiningu íðorða í menntunarfræði og birtingu þeirra í Íðorðabanka Stofnunar Árna Magnússonar. Menntunarfræði fæst við þroska barna og unglinga, uppeldi og skólastarf í víðasta skilningi. Um er ræða tiltölulega unga en ört vaxandi fræðigrein hér á landi og viðfangsefni hennar koma öllum við. Þess vegna þurfa allir, fræðimenn, kennarar og almenningur, að geta talað um viðfangsefni fræðanna af skilningi og nákvæmni. Með styrk Áslaugarsjóðs hefur verið ráðinn aðstoðarmaður sem gert hefur íðorðanefnd kleift að birta allmörg orð á liðnu ári og skilgreina hugtök á sviði þroskasálfræði og kennslufræði.
Sædís Dúadóttir Landmark og Svava Heiðarsdóttir, meistarnemar í talmeinafræði á Heilbrigðisvísindasviði, hljóta styrk fyrir verkefnið „Málörvun fjöltyngdra leikskólabarna á Íslandi“ (MLFÍ) sem leiðbeint er af Jóhönnu T. Einarsdóttur, Kathryn Crowe og Þóru Másdóttur, doktorum við námsbraut í talmeinafræði. Markmið verkefnisins er að þróa vandað og gagnreynt kennsluefni fyrir starfsfólk leikskóla. Efnið mun stuðla að auknum málþroska leikskólabarna sem hafa íslensku sem annað mál. Verkefninu er ætlað að lágmarka þær hindranir sem tví- og fjöltyngd börn standa frammi fyrir vegna tungumálaörðugleika og stuðla þannig að bættum námsárangri þeirra. Efnið verður unnið út frá völdum hágæðarannsóknum sem hafa verið framkvæmdar erlendis og kennsluefni sem notað var í rannsóknunum verður aðlagað að íslensku mál- og leikskólaumhverfi. Kennsluefnið verður sannprófað í íhlutunarrannsókn til að kanna hvort það hafi tilætluð áhrif og bæti málþroska barna sem tala annað tungumál en íslensku heima fyrir.
Halldóra Jónsdóttir og Þórdís Úlfarsdóttir, orðabókarritstjórar hjá Árnastofnun, hljóta styrk til að vinna að nýrri íslensk-enskri veforðabók. Byggt er á efni sem til er hjá Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum, en þar hafa orðið til fjölbreytt tungumálagögn í gegnum tíðina, einkum í tengslum við veforðabókina ISLEX. Notaðar verða að mestu leyti máltæknilegar aðferðir til að fá fram enska markmálið, en ekki hefur áður verið búin til orðabók með þessum hætti fyrir íslensku. Er þess vænst að árangur náist mun fyrr en með hefðbundnum leiðum og að hægt verði að birta orðabókina áður en langt um líður.
Björn Þór Vilhjálmsson, dósent við Íslensku- og menningardeild Hugvísindasviðs, fær framhaldsstyrk til rannsóknarinnar „Myndvísir – stafræn þekkingarveita á sviði kennslu og rannsókna í kvikmyndafræði“. Aðeins lítill hluti þess orðasafns sem notast er við þegar einstaklingar tjá sig um kvikmyndir og kvikmyndatengd efni, jafnt í daglegu máli og innan fræðasamfélagsins, hefur verið til á íslensku. Á vegum kvikmyndafræðinnar hefur hins vegar staðið yfir þýðingarvinna þar sem leitast er við að byggja upp hugtakasafn á þessu sviði. Lykilmarkmið er að nýta tækifæri stafrænna hugvísinda til að efla þýðingarvinnuna og nýta kosti netsins, ekki síst með gagnvirkni í huga, virkjun þvermiðlalegrar framsetningar (nota myndefni á borð við stillur, atriði úr kvikmyndum, hjóðdæmi, o.s.frv.), og sískrifum því ólíkt prentverki er texti á netinu aldrei í endanlegu formi.
Xindan Xu, aðstoðarmaður hjá Rannsóknarstofunni máli og tækni, og Anton Karl Ingason, lektor í íslenskri málfræði og máltækni, hlutu styrk fyrir verkefnið „Þróun á leifturminniskortum fyrir íslensku sem annað mál“. Í þessu verkefni verða íslenskar máltæknilausnir notaðar til að þróa leifturminniskort (e. flash cards) fyrir 2.000 algengustu orð íslenskrar tungu. Leifturminniskort eru vel þekkt verkfæri sem gagnast vel í tungumálanámi. Kortin verða gefin út bæði í pdf-skjölum sem hægt er að prenta út og minniskortum fyrir Anki-forritið. Efnið getur nýst öllum hópum sem vilja læra íslensku, þar á meðal nemendum í formlegu háskólanámi í íslensku sem öðru máli.
Ástráður Eysteinsson, prófessor við Íslensku- og menningardeild, og Xinyu Zhang, doktorsnemi við sömu deild, hlutu styrk fyrir verkefnið „Hugtakaforði í samtímabókmenntafræði og þýðingagengi hans á íslensku“. Það snýr að þýðingum og útskýringum á nýjum hugtökum í samtímabókmenntafræði. Markmiðið er að safna saman hugtökum sem fram hafa komið eða gegnt hafa vaxandi hlutverki á síðustu árum í bókmenntaumræðu hérlendis sem erlendis og athuga þýðingagengi þeirra á íslensku. Stefnt er að því að tefla þeim fram á íslensku með ítarlegum skýringum á einum stað en með fram úrvinnslu á nýjum hugtökum verður eldra fræðirit sem inniheldur þýðingar og rækilegar útskýringar á hugtökum í bókmenntafræði samtímans yfirfarið og endurskoðað.
Eva María Jónsdóttir, verkefnisstjóri hjá Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum, hlaut styrk í samstarfi við vinafélag Árnastofnunar (Vinir Árnastofnunar) fyrir orðaleikinn Spagettí. Í heimi almennrar skjátækjanotkunar er mikilvægt að leikur með íslenskan orðaforða sé almenningi í boði og komi til móts við símnotendur sem sækja afþreyingu í síma og spjaldtölvur. Orðaleikurinn Spagettí gengur út á að para saman samheiti eins og þau koma fyrir í Íslensku orðaneti eftir Jón Hilmar Jónsson sem opnað var á veraldarvefnum fyrir tæpum fimm árum.
Randi W. Stebbins og Emma Björg Eyjólfsdóttir hjá Ritveri Háskóla Íslands hljóta styrk til að vinna að gagnabankanum Fræðilegt tungutak. Um er að ræða safn orða og orðasambanda sem notuð eru til að framkvæma í texta þær aðgerðir sem tíðkast í fræðilegum skrifum þvert á greinar, til dæmis að rökstyðja tilgátu eða bera saman kenningar annarra. Fyrirmynd að þessum gagnabanka er Manchester Academic Phrase Bank sem í áratugi hefur nýst fræðafólki sem skrifar á ensku. Verkefnið verður unnið í samvinnu Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum og Ritvers Háskóla Íslands. Risamálheild Árnastofnunar verður notuð til að finna raunveruleg dæmi um málnotkun úr fræðitextum á íslensku til að byggja á. Gagnabankinn mun auðvelda fræðileg skrif á íslensku, sérstaklega námsfólki sem er að taka sín fyrstu skref í fræðilegum skrifum, hvort sem það hefur íslensku að móðurmáli eða ekki, og bankinn mun ekki síður nýtast reyndum fræðimönnum.
Védís Ragnheiðardóttir, stundakennari og doktorsnemi í íslenskum bókmenntum við Íslensku- og menningardeild Hugvísindasviðs, hlýtur styrk til að vinna að eflingu, þróun og kynningu á ritfærninámskeiði á BA-stigi sem opið verður öllum grunnnemum Háskóla Íslands. Sérstaklega verður unnið að því að efla skapandi og hagnýta ritfærni en sá þáttur ritfærniþjálfunar hefur farið halloka á öllum skólastigum. Í takt við erlenda þróun verður notast við sannsögur (e. creative nonfiction) til að efla ritfærni á háskólastigi.
Nánar um Styrktarsjóð Áslaugar Hafliðadóttur
Áslaug Hafliðadóttir arfleiddi Háskóla Íslands að stórum hluta eigna sinna, samanlagt um 120 milljónum króna. Samkvæmt erfðaskrá Áslaugar skyldu fjármunirnir nýttir til að efla íslenska tungu og það skilyrði var sett að sjóðurinn yrði notaður til sérverkefna á sviði íslenskra fræða eða til stuðnings við þá sem leggja stund á íslensk fræði. Styrkir standa bæði starfsmönnum og nemendum Háskóla Íslands til boða, m.a. til rannsókna, þróunar, kennslu, þjálfunar, nýmæla eða kaupa á tækjum og búnaði sem falla að markmiðum sjóðsins. Í stofnskrá sjóðsins segir að sérstaklega skuli stutt við verkefni sem lúta að ritfærni og þjálfun nemenda á öllum fræðasviðum háskólans við beitingu íslensks máls og styrkja stöðu íslenskunnar í síbreytilegu tækniumhverfi.
Sjóðurinn starfar samkvæmt staðfestri skipulagsskrá og hefur sjálfstætt starfandi stjórn. Í stjórn sjóðsins sitja Höskuldur Þráinsson, prófessor emeritus, sem jafnframt er formaður stjórnar, Dagný Kristjánsdóttir, prófessor emeritus og Viðar Guðmundsson, prófessor við Verkfræði- og náttúruvísindasvið.
Styrktarsjóður Áslaugar Hafliðadóttur er í umsjá og vörslu Styrktarsjóða Háskóla Íslands og fellur undir sjóði sem lúta yfirstjórn háskólans. Styrktarsjóðir Háskóla Íslands hafa umsjón með sjóðum og gjöfum sem Háskóla Íslands hafa verið ánafnaðar allt frá stofnun hans. Nánari upplýsingar um Styrktarsjóð Áslaugar Hafliðadóttur, styrkþega og aðra sjóði í vörslu Styrktarsjóða Háskóla Íslands veitir Helga Brá Árnadóttir, verkefnisstjóri Styrktarsjóða Háskóla Íslands, helgab@hi.is, sími 899-8719.