Háskóli Íslands

Á annan tug milljóna til eflingar íslenskri tungu

Ellefu styrkir hafa verið veittir úr Styrktarsjóði Áslaugar Hafliðadóttur til verkefna sem öll miða að því að efla íslenska tungu á tímum hraðra tæknibreytinga. Styrkirnir renna til fræðimanna og nemenda við Háskóla Íslands sem vinna að fjölbreyttum rannsóknum og verkefnum sem snúa að stöðu íslenskrar tungu í samtímanum. Þetta er í sjötta skipti sem úthlutað er úr sjóðnum og nemur heildar¬upphæð styrkjanna 14.850.000 kr. 
 
Styrktarsjóður Áslaugar Hafliðadóttur var stofnaður við Háskóla Íslands árið 2014 til minningar um Áslaugu Hafliðadóttur og foreldra hennar, þau Sesselju Eiríksdóttur og Hafliða Jón Hafliðason. Meginmarkmið sjóðsins er að efla íslenska tungu með styrkjum til sérverkefna á sviði íslenskra fræða. 
 
Styrkjum var að þessu sinni úthlutað til eftirtalins fræðifólks og nemenda:
 
Ágústa Þorbergsdóttir, deildarstjóri við Stofnun Árna Magnússonar, hlaut styrk f.h. Íðorðanefndar fyrir verkefnið „Íðorðasafn í leiklist“. Tekin verða saman íslensk leiklistarorð og erlend jafnheiti sem ná yfir sem mest af þeim sértæka orðaforða sem leikarar, sviðslistamenn, leikstjórar, sviðsmenn, leikbúninga- og leikmyndahönnuðir nota, s.s. um störf í tengslum við leiklist og leikhús. Ekkert íslenskt íðorðasafn á sviði leiklistar er tiltækt og með verkefninu verður bætt úr þeirri þörf og unnið að eflingu íslenskrar tungu. Íðorðasafnið verður gert aðgengilegt í rafrænum Íðorðabanka Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum (idord.arnastofnun.is) sem er í opnum aðgangi. Þar verður unnt að fletta upp réttri þýðingu leiklistarorða milli íslensku og erlendra mála og finna skilgreiningu þeirra.  
 
Ásdís Ósk Jóelsdóttir, lektor í textíl við Menntavísindasvið, hlýtur styrk fyrir verkefnið „Orðasafn fyrir fatagerð: Snið, sníða og sauma“. Markmiðið er að  búa til íslenskt orðasafn fyrir fatagerð sem nýtist sem undirstaða fyrir þróun og menntun í fatagerð og fatahönnun. Orðasafnið er mikilvægt fyrir útgáfu fræðirita og námsbóka og fyrir fræði-, fag- og áhugafólk og mismunandi starfsemi og fyrirtækjarekstur innan fatagerðar og fatahönnunar. Vinnuferlið við gerð fatnaðar er langt og flókið og í framleiðslu eru gjarnan margir sem koma að þeirri vinnu. Þess vegna er mikilvægt að samræma orðaval. Í kennslu er mikilvægt að viðhafa ákveðna gerð af orðfærni þannig að mögulegt sé að vinna eftir leiðbeiningum og verkefnalýsingum kennara og eftir innihaldi námsbóka. Samræmt orðalag eykur einnig og samræmir virkni bæði í huglægum og líkamlegum skilningi, þ.e. þar sem hugur og hönd þurfa að vinna vel saman.
 
Birna Arnbjörnsdóttir, prófessor emerita í annarsmálsfræðum við Háskóla Íslands, hlaut styrk fyrir lokafrágang bókarinnar „Máltileinkun, menntun og líðan fjöltyngdra barna á Íslandi“.  Fjöltyngi barna eykst á Íslandi, ekki eingöngu meðal þeirra sem læra íslensku sem annað mál heldur líka meðal barna sem eiga íslensku að móðurmáli en búa í nánu sambýli við ensku. Markmiðið er að gefa út aðgengilegt inngangsrit að fjöltyngi fyrir almenning og til kennslu t.d. kennaranema og annarra sem koma að menntun fjöltyngdra barna en hafa ekki sérþekkingu á því sviði. Mikill skortur er á yfirlits- og inngangsriti á íslensku sem fjallar um íslenskar aðstæður. Gildi verkefnisins felst m.a. í fræðslu þeirra sem ekki eru sérmenntaðir í annarsmálsfræðum og það eflir getu þeirra til að þjóna hagsmunum fjöltyngdra barna, hvaðan sem þau koma. Aðkallandi er að styrkja þekkingu almennra kennaranema og kennara á leik-, grunn- og framhaldsskólastigi sem allir vinna í dag með fjöltyngdum nemendum. Auk þess er mikilvægt að fjölskyldur átti sig á eðli fjöltyngis og áhrifum þess á sjálfsmynd, samskipti og nám barna.
 
Branislav Bédi, verkefnisstjóri við Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum, hlýtur framhaldsstyrk til að vinna að Íslensk-þýskri orðabók, LEXÍU. Orðabókin er unnin í samstarfi við Háskólann í Vínarborg og verður ókeypis og öllum aðgengileg á vefnum. Markhópar eru íslenskunemar í þýskumælandi löndum, nemendur og kennarar á öllum skólastigum ásamt þýðendum og túlkum milli málanna tveggja.
 
Brynhildur Yrsa V. Guðmundsdóttir, meistaranemi í ritlist við Íslensku- og menningardeild Hugvísindasviðs, hlýtur styrk fyrir hönd Blekfjelagsins, félags meistaranema í ritlist og meistaranema í hagnýtri ritstjórn og útgáfu við sömu deild. Styrkurinn verður nýttur til útgáfu smásagna- og ljóðasafnsins „Takk fyrir komuna“. Verkefnið er unnið í áfanganum „Á þrykk“ sem kenndur er á framhaldsstigi við Íslensku- og menningardeild Háskóla Íslands. Að gerð verksins koma sex meistaranemar í ritstjórn og útgáfu og tíu meistaranemar í ritlist. Bókin kemur út í byrjun júní hjá Unu útgáfuhúsi.
 
Gauti Kristmannsson, prófessor í þýðingafræðum og við Þýðingasetur Háskóla Íslands og Gunnlaugur Bjarnason söngvari fyrir hönd flytjenda, hlutu styrk til þýðingar á óperunni „L´Orfeo – Favola in musica“ eftir Claudio Monteverdi en Óperukompaníið Pluto og Barokkbandið Brák munu flytja verkið árið 2024. Þýðandi er Steinunn Arnbjörg Stefánsdóttir, skáld, sellóleikari og sérfræðingur í upprunaflutningi á barokktónlist. Markmið þýðingarinnar er að gera óperutónlist aðgengilegri fyrir íslenska áhorfendur með því að flytja hana á íslensku. Þegar óperur eru fluttar á frummálum glatast ákveðin tækifæri til tengingar við áhorfendur og er þessi þýðing tilraun til þess að gera veg óperutónlistar meiri á Íslandi en líka tilraun til nýsköpunar í þýðingum.
 
Gunnlaugur Björnsson, rannsóknarprófessor í stjarneðlisfræði við Raunvísindastofnun Háskólans og Baldur Arnarson blaðamaður, hljóta styrk til að þýða bókina Lost in Math: How Beauty Leads Physics Astray eftir Sabine Hossenfelder, þýskan eðlisfræðing. Bókin fjallar um öreindafræði og strengjafræði en einnig um stöðu hinnar vísindalegu aðferðar í kennilegri eðlisfræði nútímans. Þýðing bókarinnar styður við nám í raungreinum og heimspeki á íslensku en umfjöllunarefni hennar hefur einnig víðari skírskotun til samfélagsins almennt. Þýðingarvinnan krefst nokkurrar hugtakasmíði á íslensku og er því einnig framlag til þróunar íslensks tækni- og sérfræðimáls. 
 
Rósa Elín Davíðsdóttir, stundakennari í frönsku við Háskóla Íslands, hlaut styrk fyrir verkefnið „Viðbótarorðaforði fyrir LEXÍU, nýja íslensk-franska orðabók“. Markmiðið með verkefninu er að vinna 5.000 viðbótarflettur fyrir nýja íslensk-franska veforðabók, LEXÍU, sem opnuð var í júní 2021 og er öllum aðgengileg án endurgjalds á vefslóðinni: https://lexia.hi.is/is. Lexía er unnin í samstarfi Stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum, sem hefur umsjón með vinnu við markmálið frönsku, og Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum, sem mótaði gagnagrunninn og íslenska hluta verksins. LEXÍA samanstendur af um 50 þúsund uppflettiorðum, einkum orðum í nútímaíslensku, og fjölmörgum notkunardæmum og orðasamböndum sem öll eru þýdd á frönsku. Viðbótarorðaforðinn er fenginn úr nýrri íslenskri risamálheild og varðar einkum umhverfi, orku og samfélag. Eftir viðbæturnar mun LEXÍA innihalda 55 þúsund uppflettiorð. Orðabókin gerir íslenskum notendum kleift að nálgast orðaforða frönsku út frá móðurmálinu, íslensku, í stað þess að fara í gegnum annað erlent tungumál. Jafnframt nýtist orðabókin frönskumælandi nemendum í íslensku ásamt þýðendum og túlkum milli íslensku og frönsku. 
 
Rúnar Helgi Vignisson, prófessor í ritlist við Íslensku- og menningardeild, hlýtur styrk til þess að vinna að kennslubók í ritlist. Bókin er ætluð ritlistarnemum og öðru skapandi fólki sem vill bæta sig á sviði sagnagerðar. Þar verður farið í öll helstu atriði sem huga þarf að við ritun frásagna, hvort sem þær eru skáldaðar eða sannsögulegar, stuttar eða langar. Hér er á ferðinni handhæg bók sem lesandi getur flett upp í til að glöggva sig á ýmsu sem að sagnagerð lýtur og sækja sér innblástur. Í bókinni verður tekið mið af sagnalist á íslensku og dæmi sótt í þann sjóð.
 
Sædís Dúadóttir Landmark og Svava Heiðarsdóttir, meistaranemar í talmeinafræði á Heilbrigðisvísindasviði, hljóta framhaldsstyrk fyrir málörvunarverkefnið „Orðheimurinn“. Efnið er sérstaklega þróað fyrir 3-4 ára fjöltyngd börn á leikskólaaldri og er ætlað að lágmarka þær hindranir sem þessi hópur barna stendur gjarnan frammi fyrir vegna tungumálaörðugleika. Auk þess er efninu ætlað að vera undirbúningur fyrir fyrstu stig grunnskólans. Verkefnið snýr að áframhaldandi þróun efnisins en fyrri helmingur þess hefur nú þegar verið þýddur, staðfærður og lagður fyrir í fýsileikarannsókn innan íslenskra leikskóla. Niðurstöður rannsóknarinnar verða nýttar til að betrumbæta efnið fyrir áframhaldandi þróun og fyrirhugaða samanburðarrannsókn sem fram fer á haustmánuðum 2022. Þá verða lögð drög að vefsíðu þar sem námsgögnin verða aðgengileg nemendum og kennurum með rafrænum hætti, öllum að kostnaðarlausu. Með þeim hætti verður stutt við framboð viðeigandi námsgagna sem eru í takt við ört vaxandi hóp fjöltyngdra barna í íslensku samfélagi. Leiðbeinendur eru Jóhanna T. Einarsdóttir, Kathryn Crowe og Þóra Másdóttir, fræðimenn við námsleið í talmeinafræði. 
 
Þórdís Úlfarsdóttir, orðabókarritstjóri hjá Stofnun Árna Magnúsonar í íslenskum fræðum, hlýtur framhaldsstyrk til að vinna að nýrri íslensk-enskri veforðabók. Byggt er á efni sem til er hjá stofnuninni, en þar hafa orðið til fjölbreytt tungumálagögn í gegnum tíðina í tengslum við rafrænar orðabækur. Notaðar eru að miklu leyti máltæknilegar aðferðir til að fá fram enska markmálið, bæði stök orð og þýðingar á dæmum og orðasamböndum, m.a. er notast við vélþýðingar. Allt efnið er svo yfirfarið af starfsmönnum verkefnisins. Þetta er frumraun við að búa til orðabók með þessum hætti fyrir íslensku og hefur aðferðin gefið góða raun og áhugaverðar niðurstöður. Þess er vænst að hægt verði að birta orðabókina áður en langt um líður.
 
Nánar um Styrktarsjóð Áslaugar Hafliðadóttur
Áslaug Hafliðadóttir arfleiddi Háskóla Íslands að stórum hluta eigna sinna, samanlagt um 120 milljónum króna. Samkvæmt erfðaskrá Áslaugar skyldu fjármunirnir nýttir til að efla íslenska tungu og það skilyrði var sett að sjóðurinn yrði notaður til sérverkefna á sviði íslenskra fræða eða til stuðnings við þá sem leggja stund á íslensk fræði. Styrkir standa bæði starfsmönnum og nemendum Háskóla Íslands til boða, m.a. til rannsókna, þróunar, kennslu, þjálfunar, nýmæla eða kaupa á tækjum og búnaði sem falla að markmiðum sjóðsins. Í stofnskrá sjóðsins segir að sérstaklega skuli stutt við verkefni sem lúta að ritfærni og þjálfun nemenda á öllum fræðasviðum háskólans við beitingu íslensks máls og styrkja stöðu íslenskunnar í síbreytilegu tækniumhverfi.
 
Sjóðurinn starfar samkvæmt staðfestri skipulagsskrá og hefur sjálfstætt starfandi stjórn. Í stjórn sjóðsins sitja Höskuldur Þráinsson, prófessor emeritus í íslensku nútímamáli, Dagný Kristjánsdóttir, prófessor emerítus í íslenskum nútímabókmenntun, og Viðar Guðmundsson, prófessor við Verkfræði- og náttúruvísindasvið.
 
Styrktarsjóður Áslaugar Hafliðadóttur er í umsjá og vörslu Styrktarsjóða Háskóla Íslands og fellur undir sjóði sem lúta yfirstjórn háskólans. Styrktarsjóðir Háskóla Íslands hafa umsjón með sjóðum og gjöfum sem Háskóla Íslands hafa verið ánafnaðar allt frá stofnun hans. 
Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is