Guðrún Þengilsdóttir og Maria Dolores Moya Ortega, doktorsnemar við Lyfjafræðideild Háskóla Íslands, hafa hlotið viðurkenningu úr Verðlaunasjóði Bergþóru og Þorsteins Schevings Thorsteinssonar lyfsala. Þetta er í sjötta sinn sem doktorsnemum í lyfjafræði við Háskóla Íslands er veitt viðurkenning úr sjóðnum fyrir framúrskarandi rannsóknir í lyfjafræði. Heildarupphæð styrksins er 800.000 krónur og hlýtur hvor styrkhafi 400.000 krónur.
Verðlaunasjóði Bergþóru og Þorsteins Schevings Thorsteinssonar lyfsala er ætlað að styrkja vísindaleg afrek á sviði lyfjafræði, rannsóknir og framhaldsnám í faginu. Sjóðurinn hefur stutt við kraftmikla uppbyggingu doktorsnáms í lyfjafræði við Háskólann og gert nemendum kleift að kynna rannsóknir sínar erlendis og taka þátt í erlendu samstarfi í tengslum við doktorsnámið.
Rannsóknaverkefni Guðrúnar Þengilsdóttur fjallar um meðferðarheldni, sem er hugtak sem lýsir því hvort einstaklingur tekur lyf í samræmi við fyrirmæli en meðferðarheldni hefur mikið að segja um árangur lyfjameðferðar. Meðferðarheldni hefur oft verið rannsökuð erlendis en ekki hér á landi áður. Markmið þessarar rannsóknar er að meta meðferðarheldni við lyf í flokki blóðfitulækkandi statína, þunglyndislyfja og sykursýkilyfja í töfluformi. Notast verður við gögn úr lyfjagagnagrunni landlæknisembættisins um allar afgreiðslur á áðurnefndum lyfjum á árunum 2005-2010. Einnig verða tekin djúpviðtöl við notendur blóðfitulækkandi lyfja til að komast að reynslu og viðhorfum þeirra sem þurfa að taka þau. Guðrún lauk meistaraprófi í lyfjafræði frá Háskóla Íslands vorið 2009. Hún hóf doktorsnám haustið 2009 undir leiðsögn Önnu Birnu Almarsdóttur prófessors.
Rannsóknaverkefni Mariu Dolores Moya Ortega fjallar um hönnun og rannsóknir á nanó- og míkró-hlaupi fyrir lyfjagjöf í augu, nef og munnhol. Hlaupið er sett út í lausnir, eins og t.d. augndropa, þar sem það eykur leysni lyfja og lengir viðverutíma þeirra á yfirborði slímhimna. Örsmáar sýklódextrínsameindir eru tengdar saman í stærri hlaupkenndar agnir sem geta verið frá 10 nanómetrum til 100 míkrómetra í þvermál. Stærð hlaupagnanna hefur áhrif á slímviðloðun þeirra. Að jafnaði loða agnirnar betur við yfirborð eftir því sem þær eru stærri og áhrifin af lyfjunum vara lengur. Sýklódextríneiningarnar í hlaupinu mynda fléttur við fitusæknar lyfjasameindir. Þessar bundnu lyfjasameindir losna síðan hægt frá hlaupinu og frásogast inn í slímhimnuna. Verið er að rannsaka nanóhlaup í lyfjaformum eins og augndropum og meta áhrif þess á flutning lyfja inn í augað. Maria lauk MS-prófi í lyfjafræði frá University of Sevilla árið 2008. Hún hóf doktorsnám árið við Háskóla Íslands haustið 2008 undir leiðsögn Þorsteins Loftssonar prófessors.
Verðlaunahafarnir hafa birt vísindagreinar um rannsóknaverkefni sín og kynnt þau með erindum og veggspjöldum á vísindaráðstefnum hérlendis og erlendis.
Bent Scheving Thorsteinsson stofnaði Verðlaunasjóð Bergþóru og Þorsteins Schevings Thorsteinssonar í maí árið 2001 til minningar um föður sinn, Þorstein Scheving Thorsteinsson, lyfsala í Reykjavíkurapóteki, og eiginkonu hans, Bergþóru Patursson. Í desember 2007 bætti Bent um betur og lagði til viðbótarframlag við höfuðstól sjóðsins. Eigið fé sjóðsins er þá orðið um 20 milljónir króna en samtals hefur Bent gefið Háskóla Íslands 60 milljónir króna með stofnun þriggja sjóða sem heyra undir Styrktarsjóði skólans.
Styrktarsjóðir Háskóla Íslands hafa umsjón með sjóðum og gjöfum sem ánafnaðar hafa verið Háskóla Íslands, allt frá stofnun hans. Flestir þeirra starfa samkvæmt staðfestri skipulagsskrá og er þeim ætlað að styðja við ýmis verkefni á ákveðnum fræðasviðum til hagsældar fyrir Háskóla Íslands, stúdenta eða starfsfólk.