Háskóli Íslands

Doktorsnemar í lyfjafræði hljóta viðurkenningu

Þrír doktorsnemar við Lyfjafræðideild Háskóla Íslands, þær Elena Ukhatskaya, Eydís Einarsdóttir og Priyanka Sahariah, hafa hlotið viðurkenningu úr Verðlaunasjóði Bergþóru og Þorsteins Schevings Thorsteinssonar lyfsala. Rannsóknir þeirra hafa nú þegar leitt til nýrrar þekkingar í lyfjafræði. Þetta er í áttunda sinn sem doktorsnemum í lyfjafræði við Háskóla Íslands er veitt viðurkenning úr sjóðnum fyrir framúrskarandi rannsóknir. Heildarupphæð styrksins er 990.000 krónur og hlýtur hver styrkhafi 330.000 krónur.

Verðlaunasjóði Bergþóru og Þorsteins Schevings Thorsteinssonar lyfsala er ætlað að styrkja vísindaleg afrek á sviði lyfjafræði, sem og rannsóknir og framhaldsnám í faginu. Sjóðurinn hefur stutt við kraftmikla uppbyggingu doktorsnáms í lyfjafræði við háskólann og gert nemendum kleift að kynna rannsóknir sínar erlendis og taka þátt í erlendu rannsóknasamstarfi.

Doktorsverkefni Elenu Ukhatskaya (elena@hi.is) miðar að því að rannsaka flokk efna sem kallast amínókalixaren (aminocalixaren). Amínókalixaren eru hringlaga fáliður (oligomer) með vatnssækið ytra yfirborð en fitusækið holrúm í miðju þar sem ýmis fitusækin efni, svo sem lyf, geta hreiðrað um sig og myndað fléttu tveggja efnasambanda. Í vatnslausnum hópa amínókalixaren-sameindir sig gjarnan saman og mynda nanóagnir sem geta ferjað lyf inn í líkama manna og dýra. Í þessu verkefni er rannsakað hvernig amínókalixaren-sameindir mynda fléttur með lyfjasameindum, hvernig þær hópa sig saman til að mynda nanóagnir og hvernig þessar nanóagnir flytja lyf í gegnum lífrænar himnur. Auk þess eru eiturhrif (toxicity) amínókalixarena rannsökuð, sem og áhrif þeirra á bakteríur. Markmiðið með rannsókninni er að þróa bakteríudrepandi fléttur lyfja og amínókalixarena sem nota má til lyfjagjafar á húð, þ.e. að þróa sérstakar lyfjaferjur fyrir sýklalyf og auka þannig virkni þeirra gagnvart ónæmum bakteríum. Elena lauk meistaraprófi í dýrafræði frá Ivanovo State University í Rússlandi árið 2005. Hún hóf doktorsnám við Háskóla Íslands árið 2009 undir leiðsögn Þorsteins Loftssonar prófessors.

Í doktorsverkefni sínu rannsakar Eydís Einarsdóttir (eydisei@hi.is) hvort sjávarhryggleysingjar, sem safnað er úr íslenskum sjó, hafi að geyma krabbameinshemjandi efnasambönd sem gætu reynst áhugaverð til lyfjaþróunar. Áhersla er lögð á rannsóknir á sjávarhryggleysingjum með mjúkt yfirborð en þeir eru líklegri til þess að stunda efnahernað sér til varnar en hinir sem hafa hart yfirborð. Í verkefninu er svokallaðri lífvirknileiddri einangrun beitt til að finna efnasambönd sem hemja áhrif krabbameinsfrumna í rækt (in vitro). Efnabygging nýrra og áhugaverðra krabbameinshemjandi efnasambanda er svo skilgreind nákvæmlega í verkefninu. Ísland er á einstökum stað í Norður-Atlantshafi og líffræðilegur fjölbreytileiki í hafinu í kringum landið hefur nánast ekkert verið rannsakaður með tilliti til efnainnihalds lífvera. Hafsvæðið í kringum Ísland hefur sérstöðu, ekki hvað síst vegna kaldra strauma úr Norður-Atlantshafi og jarðhitasvæða á hafsbotni sem gefa möguleika á einstöku lífríki og nýjum virkum náttúruefnum. Eydís lauk meistaraprófi í lyfjavísindum frá Háskóla Íslands árið 2010. Hún hóf doktorsnám sama ár við skólann undir leiðsögn Sesselju Ómarsdóttur dósents og Elínar Soffíu Ólafsdóttur prófessors.

Rannsóknaverkefni Priyönku Sahariah (prs1@hi.is) miðar að því að smíða svokallaðar kítósanafleiður sem hafa líka byggingu og örverudrepandi peptíð, en þau eru hluti af vörnum líkamans gegn sýkingum. Kannaðir  verða notkunarmöguleikar kítósanafleiðanna til lækninga og til sótthreinsunar. Kítósan er sérstök fjölsykra sem er einangruð úr rækjuskel. Afleiður þessarar fjölsykru má skilgreina sem örtækniefni þar sem efnin eru stærri en hefðbundið lyfjaefni en samt örsmá. Mögulegt er að gefa slíkum efnum fjölbreyttari eiginleika en þau hafa jafnan og hanna þau þannig að ákveðinn hluti efnisins sjái um virkni gegn örverum en annar hluti sjái um að ferja efnið þangað sem þörfin er mest. Lyfjaefni sem byggjast á eðli örverudrepandi peptíða kunna að nýtast í framtíðinni sem breiðvirk sýklalyf. Mikilvægt er að finna ný lyf af þeirri tegund og sótthreinsunarefni sem leysa af hólmi þau hefðbundnu og vinna þannig gegn sýklalyfjaónæmi. Priyanka lauk meistaranámi í lífrænni efnafræði frá Gauhati University á Indlandi árið 2005. Hún hóf doktorsnám við Háskóla Íslands árið 2010 undir leiðsögn Más Mássonar prófessors.

Bent Scheving Thorsteinsson stofnaði Verðlaunasjóð Bergþóru og Þorsteins Schevings Thorsteinssonar í maí árið 2001 til minningar um föður sinn, Þorstein Scheving Thorsteinsson, lyfsala í Reykjavíkurapóteki, og eiginkonu hans, Bergþóru Patursson. Í desember 2007 bætti Bent um betur og lagði til viðbótarframlag við höfuðstól sjóðsins. Eigið fé sjóðsins er þá orðið um 20 milljónir króna en samtals hefur Bent gefið Háskóla Íslands 60 milljónir króna með stofnun þriggja sjóða sem heyra undir Styrktarsjóði Háskóla Íslands. Hinir sjóðirnir tveir eru Verðlaunasjóður Óskars Þórðarsonar læknis, sem hefur það að markmiði að veita verðlaun fyrir vísindaleg afrek, rannsóknir, ritgerðir og skylda starfsemi á sviði barnalækninga, og Styrktarsjóður Margaretar og Bents Schevings Thorsteinssonar, sem ætlað er að styðja við rannsóknir á einelti.

Styrktarsjóðir Háskóla Íslands hafa umsjón með sjóðum og gjöfum sem Háskóla Íslands hafa verið ánafnaðar, allt frá stofnun hans. Flestir þeirra starfa samkvæmt staðfestri skipulagsskrá og er þeim ætlað að styðja ýmis verkefni á ákveðnum fræðasviðum til hagsældar fyrir Háskóla Íslands, stúdenta eða starfsfólk.

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is