Háskóli Íslands

Eineltisrannsókn vekur athygli

Niðurstöður eineltisrannsóknar, sem koma fram í nýútkomnu riti á vegum Rannsóknastofnunar Ármanns Snævarr um fjölskyldumálefni, hafa vakið mikla athygli. Um er að ræða ritið: Ábyrgð og aðgerðir - Niðurstöður þverfræðilegrar rannsóknar á einelti meðal barna á Íslandi. Verkefnið hlaut styrk úr Styrktarsjóði Margaretar og Bents Sch. Thorsteinssonar.

Fyrri hluti ritsins geymir fræðilegt yfirlit og helstu niðurstöður þverfræðilegrar rannsóknar á einelti meðal íslenskra barna. Í seinni hluta er útdráttur þriggja meistararitgerða sem niðurstöður rannsóknarinnar byggjast á. Höfundar meistararitgerðanna eru Daníel Reynisson, sem rannsakaði einelti frá sjónarhóli lögfræði, Hjördís Árnadóttir, sem rannsakaði það frá sjónarhóli félagsráðgjafar, og Sjöfn Kristjánsdóttir, sem rannsakaði það frá sjónarhóli grunnskólakennara. Meðhöfundar að útdráttum ritgerðanna, sem birtast í ritinu, eru kennarar við Háskóla Íslands.

Efni ritsins hefur vakið mikla athygli í íslenskum fjölmiðlum. Ríkisútvarpið fjallaði um mögulega skaðabótaábyrgð í eineltismálum og Síðdegisútvarpið fjallaði um þessa nýju rannsókn á einelti. Morgunblaðið
fjallaði um niðurstöður rannsóknarinnar og sérstaklega um að kennarar fengju ekki nægilega þjálfun í eineltismálum. Rannsóknin rataði einnig í kvöldfréttatíma Stöðvar 2 og Morgunútvarp Rásar 2. Auk þess fjallaði Fréttablaðið bæði um málið í almennum fréttum og leiðara blaðsins.

Hægt er að panta eintak ritsins með því að senda Þórhildi Líndal, forstöðumanni Rannsóknastofnunar Ármanns Snævarr, póst. Í póstinum skal koma fram nafn greiðanda, aðsetur og sími. Ritið kostar 2.500 kr. Einnig verður hægt að kaupa það í bóksölu Úfljóts í Lögbergi og Bóksölu stúdenta á Háskólatorgi á næstu dögum.

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is