Fjórir fengu í dag styrki úr Watanabe-styrktarsjóðnum við athöfn í Hátíðasal Háskóla Íslands. Þar á meðal er japanskur háskólanemi, sem er mikill aðdáandi Halldórs Laxness, og lektor við Háskóla Íslands sem vill auka rannsóknarsamstarf á milli háskólans og japanskra rannsóknarstofnana.
Styrkhafarnir eru Guðrún Valdimarsdóttir, lektor við Læknadeild Háskóla Íslands, Valý Þórsteinsdóttir, nemi í japönsku við Háskóla Íslands, Saho Kameyama, meistaranemi í gagnafræði lífheimsins (e. Biosphere Informatics) við Kyoto-háskóla, og Shohei Watanabe, nemi í skapandi skrifum við Waseda-háskóla í Tókýó. Heildarupphæð styrkjanna nemur rúmlega 3,5 milljónum króna.
Guðrún Valdimarsdóttir hlýtur styrk til tveggja vikna dvalar í Tókýó til þess að kynna sér svokallaða ChIP-chip tækni og þrívíða myndgreiningu á æðaþeli hjá vísindamönnunum Susumu Itoh, prófessor við Showa Pharmaceutical háskólann í Tókýó, og Fumiko Itoh, dósent við Tokyo University of Pharmacy and Life Sciences, en þeim kynntist Guðrún í doktorsnámi sínu. Markmið dvalarinnar er einnig að koma á samstarfi á milli þessara tveggja rannsóknarstofnana í Japan og Lífefna- og sameindalíffræðistofu Læknadeildar við Háskóla Íslands.
Valý Þórsteinsdóttir hlýtur styrk til sex mánaða dvalar við Waseda-háskóla í Tókýó þar sem hún hyggst leggja stund á nám í japönsku máli og menningu. Valý hefur stundað nám í japönsku við Háskóla Íslands undanfarin misseri en hefur áður lokið BA-námi í spænsku og þýðingarfræðum frá háskólanum.
Saho Kameyama hlýtur rúmlega þriggja mánaða styrk til rannsókna á fæðuöflun steypireyðar með sérhæfðum hljóðupptökum. Saho kemur til með að sinna rannsóknum sínum við Rannsóknasetur Háskóla Íslands á Húsavík í sumar og þar mun hún njóta leiðsagnar forstöðumanns setursins, Marianne Rasmussen. Með dvöl sinni á Íslandi vill Saho jafnframt stuðla að rannsóknarsamstarfi milli Íslands og Japans í tengslum við sjálbæra nýtingu á sjávarauðlindum.
Loks hlýtur Shohei Watanabe sex mánaða styrk til náms við Háskóla Íslands þar sem hann hyggst nema íslensku sem annað mál með sérstakri áherslu á íslenskar nútímabókmenntir. Shohei hefur mikið dálæti á bókum Halldórs Kiljans Laxness en hann komst fyrst í kynni við Nóbelsskáldið þegar hann rakst á japanska þýðingu á bókinni Kristnihald undir Jökli á bókasafni Waseda-háskóla. Shohei, sem jafnframt er ljóðskáld, vonast til þess að geta kynnt íslenskan skáldskap í Japan og einnig japanskar bókmenntir og menningu fyrir Íslendingum.
Um Watanabe-styrktarsjóðinn
Watanabe-styrktarsjóðurinn var stofnaður við Háskóla Íslands árið 2008 og er stofnun hans liður í því að styrkja gagnkvæm fræðileg tengsl Íslands og Japans. Sjóðurinn veitir íslenskum stúdentum og vísindamönnum einstakt tækifæri til að nema og starfa í japönsku háskólasamfélagi og það sama gildir um japanska stúdenta og vísindamenn sem eiga þess kost að koma til Íslands. Sjóðurinn styður enn fremur það markmið í stefnu Háskóla Íslands til 2016 að efla hágæðarannsóknir, alþjóðlegt samstarf og framhaldsnám.
Toshizo Watanabe, sem lagði fram stofnfé sjóðsins, er frumkvöðull og stofnandi Nikken-fyrirtækisins sem hefur höfuðstöðvar í Bandaríkjunum. Á yngri árum var hann skiptinemi við Brandeis-háskólann í Waltham í Massachusetts í Bandaríkjunum og kynntist þar Geir H. Haarde, fyrrverandi forsætisráðherra Íslands. Watanabe fékk styrk til námsferðarinnar í Bandaríkjunum og var ævinlega þakklátur þeim sem studdu hann til náms. Við undirritun stofnskrár sjóðsins sagðist Watanabe hafa viljað gjalda fyrir aðstoðina með því að setja sjálfur á fót sjóð til að styrkja ungt fólk til náms erlendis. Hann hafði því samband við Geir H. Haarde, gamlan skólabróður sinn, með það í huga að stofna sjóð við íslenskan háskóla.
Stjórn sjóðsins skipa Toshizo Watanabe, Már Másson, prófessor í lyfjaefnafræði við Háskóla Íslands, og Ingimundur Sigfússon cand.jur
Stofnandi sjóðsins, Toshizo Watanabe, var viðstaddur fyrstu úthlutun úr sjóðnum í fyrra en komst ekki til landsins nú. Hins vegar var skólabróðir hans, Geir H. Haarde, viðstaddur athöfnina.