Háskóli Íslands

Frjómagn evrópskra hugarheima í íslenskum nútímabókmenntum rannsakað

Dr. Birna Bjarnadóttir hefur nýverið hlotið styrk úr Sjóði Páls Guðmundssonar frá Rjúpnafelli að upphæð kr. 300.000 til að rannsaka frjómagn evrópskra hugarheima í íslenskum nútímabókmenntum.

Tilgangur Styrktarsjóðs Páls Guðmundssonar er að efla tengsl milli Háskóla Íslands og Manitóbaháskóla. Úr sjóðnum eru veittir styrkir til rannsókna, náms eða annarra verkefna sem falla að tilgangi hans.

Í rannsókninni er sjónum beint að fyrri hluta 20. aldar og því hvernig umræddu frjómagni reiðir af í íslenskum bókmenntum um og eftir fyrri heimsstyrjöld. Verkefnið er hluti af langtímarannsókn Birnu á fagurfræði í íslenskum bókmenntum frá tímum Fjölnismanna til samtímans. Verkefnið er einnig liður í samstarfsverkefni fræðimanna og listamanna sem ber heitið Könnunarleiðangur á Töfrafjallið, en Birna hefur um árbil unnið náið með myndlistarmönnum, myndskáldum og rithöfundum í tilraun um fagurfræði samtímans.

Birna er í tólf mánaða rannsóknaleyfi og vinnur nú að verkefni sínu á Ísafirði. Með haustinu mun hún stunda rannsóknir við Humboldt-háskóla í Berlín. Þar mun hún einnig flytja erindi um rannsóknir sínar, sem og nýlega útgáfu McGill ─ Queen’s University Press á bók hennar um fagurfræði Guðbergs Bergssonar í þýðingu Kristjönu Gunnars.  

Birna er dósent í íslenskum bókmenntum við Manitóbaháskóla og veitir jafnframt íslenskudeild skólans forstöðu. Hún er höfundur bókanna Holdið hemur andann. Um fagurfræði í skáldskap Guðbergs Bergssonar (Reykjavík: Háskólaútgáfan, 2003) og A Book of Fragments (Winnipeg: Kind Publishing, 2010). Birna hlaut áður styrk úr sjóðnum árið 2007.

Árið 1999 var undirritaður samstarfssamningur Háskóla Íslands og Manitóbaháskóla. Um er að ræða margháttað samstarf en þungamiðja þess felst í möguleikum stúdenta til skiptináms og fastráðinna kennara til að stunda rannsóknir beggja vegna Atlantshafs. Annar hornsteinn samningsins er samstarfsráðstefna háskólanna tveggja, sem haldin er á tveggja ára fresti. Árið 2009 voru nemendum og kennurum veittir styrkir til að sækja þessa ráðstefnu. Síðast en ekki síst má nefna sumarnámskeið á vegum íslenskudeildar Manitóbaháskóla, The Icelandic Field School, en helsti samstarfsaðili skólans um námskeiðið er Háskóli Íslands.

Styrktarsjóðir Háskóla Íslands hafa umsjón með sjóðum og gjöfum sem ánafnað hefur verið Háskóla Íslands, allt frá stofnun skólans. Flestir sjóðanna starfa samkvæmt staðfestri skipulagsskrá og er þeim ætlað að styðja við ýmis verkefni á ákveðnum fræðasviðum til hagsældar fyrir Háskóla Íslands, stúdenta hans eða starfsfólk. Frekari upplýsingar um sjóðina er að finna á sjóðavef Háskóla Íslands.
 

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is