Bergljót Kristjánsdóttir, prófessor í íslenskum bókmenntum, hefur hlotið styrk að upphæð kr. 385.000 til að heimasækja Manitoba-háskóla ásamt tveimur MA-nemendum, þeim Ástu Kristínu Benediktsdóttur og Sigrúnu Margréti Guðmundsdóttur.
Undanfarin ár hefur Bergljót, ásamt nemendum sínum, fengist við að kanna ýmis svið íslenskrar bókmenntasögu sem lítt eða ekkert var vitað um. Í þeirri vinnu hefur margt merkilegt komið í ljós sem tengist Íslendingum í Vesturheimi og framlagi þeirra til íslenskra bókmennta við lok 19. aldar og í upphafi hinnar 20.
Síðastliðið sumar fluttu þær Bergljót, Ásta Kristín og Sigrún Margrét fyrirlestra á samstarfsráðstefnu Háskóla Íslands og Manitoba-háskóla þar sem fram kom að þær bjuggu yfir vitneskju sem aðrir höfðu ekki. Á hugvísindaþingi var MA-nemunum boðið að taka þátt í „vestur-íslensku“ málstofunni og þar var það sama uppi á teningnum. Rannsóknarverkefnið hefur leitt í ljós vitneskju sem ekki hefur verið til staðar áður. Þar hefur m.a. komið í ljós að fyrsta íslenska hryllingssagan var samin af Vestur-Íslendingi, fyrstu einkenni „science-fiction“ sögunnar koma fram hjá Vestur-Íslendingi og fyrsta leynilögreglusagan á íslensku birtist í Winnipeg. Þá lék Valtýr Guðmundsson, ritstjóri Eimeiðarinnar, lykilhlutverk í að koma verkum ákveðinna vestur-íslenskra höfunda á prent. Einnig hefur komið í ljós að áhrif Edgars A. Poe birtast fyrst í íslenskum skáldskap hjá Vestur-Íslendingi en ekki Þórbergi Þórðarsyni.