Háskóli Íslands

Fyrstu styrkir úr Styrktarsjóði SVF

Veittir hafa verið fimm styrkir úr Styrktarsjóði Stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur. Allir styrkirnir renna til verkefna sem tengjast rannsóknum á tungumálum og menningu. Vigdís Finnbogadóttir, formaður sjóðsstjórnar, afhenti styrkina við hátíðlega athöfn í Hátíðasal Háskóla Íslands 15. apríl sl. en þetta var í fyrsta skipti sem úthlutað er úr sjóðnum. Til úthlutunar voru tvær milljónir króna.

 Eftirfarandi hlutu styrk:

1. Ársrit SVF fyrir árið 2010 "Milli mála" hlaut stærsta styrkinn að upphæð 880.000 kr.

2. Ársrit SVF fyrir fyrir árið 2011 sem væntanlegt er, hlaut styrk að upphæð 440.000 kr.

3. Júlían Meldon D'Arcy hlaut styrk að upphæð 300.000 kr. til að gefa út tvímála útgáfu af ljóðabók Jónasar Þorbjarnarsonar sem nefnist "Hliðargötur". Bókin verður hluti af tvímála ritröð SVF í erlendum tungumálum.

4. Birna Arnbjörnsdóttir hlaut styrk að upphæð 265.000 kr. til að varðveita raunveruleg dæmi um vestur-íslensku en koma þarf hljóðdæmum af spólum yfir á rafrænt form og gera um leið fleirum kleift að stunda frekari rannsóknir og nota þessi gögn.

5. Hólmfríður Garðarsdóttir hlaut 115.000 kr. styrk vegna útgáfu tvímála bókar, "Yfir saltan mar: Þýðingar á ljóðum Jorge Luis Borgesar á Íslandi". Bókin verður hluti af tvímála ritröð SVF í erlendum tungumálum.

Tilgangur sjóðsins er að renna styrkum stoðum undir starfsemi Stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur (SVF) og stuðla að vexti og viðgangi stofnunarinnar. Sjóðurinn var stofnaður árið 2003 af Háskóla Íslands og Kaupþingi banka.

Á ljósmyndinni sést frú Vigdís Finnbogadóttir, formaður sjóðsstjórnar, afhenda Rebekku Þráinsdóttur ristjóra styrk til útgáfu á ársriti SVF.

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is