Háskóli Íslands

Háskólasjóður Eimskipafélags Íslands styrkir doktorsnema við Háskóla Íslands og leggur fé til byggingar Háskólatorgs

Í dag var undirrituð viljayfirlýsing um breytingar á starfsemi Háskólasjóðs Eimskipafélags Íslands, sem fela í sér stóraukna styrki úr sjóðnum til rannsóknatengds framhaldsnáms við Háskóla Íslands. Þá mun Háskólasjóður Eimskipafélags Íslands leggja 500 milljónir króna á næstu þremur árum til byggingar Háskólatorgs.

Stjórn Háskólasjóðs Eimskipafélags Íslands hefur ákveðið að efla með tvennum hætti tilgang sjóðsins, sem er samkvæmt skipulagsskrá, að efla velgengni Háskóla Íslands og styrkja efnilega stúdenta til náms við Háskólann eftir ákvörðun háskólaráðs.

Háskólasjóður Eimskipafélags Íslands var stofnaður árið 1964, til minningar um þá Vestur-Íslendinga sem hlut áttu í stofnun Hf. Eimskipafélags Íslands. Stofneign sjóðsins voru hlutabréf í Eimskipafélaginu og hefur sjóðurinn verið varðveittur í hlutabréfum í félaginu, fyrst Eimskipafélaginu og nú í Burðarási hf. Samkvæmt endurskoðuðum ársreikningi sjóðsins fyrir árið 2003, nam bókfært nafnverð hlutafjáreignar sjóðsins rúmum 168 milljónum króna eða um 2,2 milljörðum króna miðað við núverandi gengi. Vegna fyrirhugaðra breytinga á starfsemi sjóðsins verður eignasamsetningu hans breytt með það að markmiði að jafna sveiflur í ávöxtun eigna og minnka áhættu, samhliða því að ná hámarksávöxtun.

Í fyrsta lagi mun Háskólasjóður Eimskipafélags Íslands veita fjárstyrki til stúdenta í rannsóknartengdu framhaldsnámi sem stundað er við Háskóla Íslands. Frá og með árinu 2009 verður árlega varið til þessara styrkja aldrei minna en 2,5% af hreinni eign sjóðsins og að hámarki meðalávöxtun undanfarinna þriggja ára að frádregnu 1%-stigi. Fyrstu styrkir úr sjóðnum verða veittir árið 2006 og mun heildarfjárhæð styrkjanna þá nema 2% af bókfærðri hreinni eign. Heildarstyrkfjárhæð fer síðan hækkandi árin 2007 og 2008. Ætla má að frá og með árinu 2009 muni sjóðurinn veita styrki fyrir um 100 milljónir króna árlega, fyrst og fremst til stúdenta í doktorsnámi.

Rannsóknatengt framhaldsnám til meistara- og doktorsgráðu er helsti vaxtarbroddurinn í starfi Háskóla Íslands og eitt mikilvægasta stefnumál hans. Uppbygging þess styrkir stöðu Háskólans sem alþjóðlegs rannsóknaháskóla og gerir honum kleift að gegna hlutverki sínu sem hornsteinn æðri menntunar á Íslandi. Háskóli Íslands er eini íslenski háskólinn sem útskrifað hefur doktora en alþjóðlegar viðmiðanir á rannsóknarháskóla gera ráð fyrir að þaðan brautskráist hið minnsta 10 doktorar árlega frá a.m.k. fjórum deildum.

Mikill vöxtur hefur verið í framhaldsnámi við Háskólann á undanförnum árum. Kennsluárið 2004-2005 eru skráðir um 140 stúdentar í doktorsnámi og á síðasta ári fóru fram 11 doktorsvarnir frá fjórum deildum skólans. Með því að geta boðið stúdentum tækifæri til að sækja um styrki meðan á doktorsnámi þeirra stendur, sambærilega þeim sem tíðkast í viðurkenndum erlendum rannsóknaháskólum, laðar Háskólinn til sín úrvalsnemendur og styrkir enn frekar alþjóðleg tengsl í rannsóknum.

Í öðru lagi mun Háskólasjóður Eimskipafélags Íslands framfylgja markmiðum sínum með því að leggja fimm hundruð milljónir króna til byggingar Háskólatorgs sem fyrirhugað er að rísi milli aðalbyggingar Háskólans og íþróttahússins og á milli Odda, Lögbergs og Nýja-Garðs.

Torgið er gríðarstórt skref í þá átt að bæta starfsskilyrði stúdenta og starfsfólks Háskólans. Ekki síður munu gestir sem leita til skólans njóta góðs af því að á torginu sameinast undir einu þaki helstu þjónustustofnanir skólans. Háskólatorg – eins og nafnið gefur til kynna – er torg samfélagsins í Háskóla Íslands, þar sem stúdentar, kennarar og gestir koma saman til að stunda nám, sinna erindum, nærast og eiga samskipti.

Háskóli Íslands er fjölbreytt samfélag á ellefta þúsund nemenda og kennara og Háskólatorg verður umgjörð og miðja þessa samfélags. Jafnframt tengir Háskólatorg saman ýmsar byggingar á háskólasvæðinu. Áhersla er lögð á opið rými – hið eiginlega torg – í hjarta byggingarinnar þar sem staðsett verður ýmiss konar þjónusta við nemendur, starfsmenn og gesti skólans. Þar verður sameiginleg móttaka fyrir ýmsar þjónustustofnanir skólans s.s. nemendaskrá, alþjóðaskrifstofu og námsráðgjöf. Þar verður einnig veitingasala, Bóksala stúdenta og starfsemi samtaka stúdenta ásamt aðstöðu fyrir minni listviðburði og uppákomur. Jafnframt verða í Háskólatorgi kennslustofur og skrifstofur, ásamt les- og vinnurými fyrir hundruð stúdenta. Fyrirhugað er að byggingarframkvæmdir hefjist í upphafi árs 2006 og að Háskólatorgið verði tekið í notkun árið 2007.

Háskóli Íslands telur að með þeim breytingum sem nú eru gerðar á starfsemi Háskólasjóðs Eimskipafélags Íslands séu mörkuð tímamót í uppbyggingu háskólastarfs í landinu og þakkar stofnendum sjóðsins og núverandi stjórn ómetanlegt framlagt til skólans.

Ljósmynd: Ingjaldur Hannibalsson, prófessor við Viðskiptafræðideild og formaður byggingarnefndar Háskólatorgs, á byggingarstað Háskólatorgs.

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is