Háskóli Íslands

Háskólasjóður Eimskipafélagsins styrkir doktorsnema um allt að 60 milljónir króna

Í upphafi næsta árs, þegar Háskóli Íslands fagnar aldarafmæli, verður úthlutað allt að 60 milljónum króna í vísindastyrki til doktorsnema úr Háskólasjóði H/f Eimskipafélags Íslands. Ekki hefur verið unnt að úthluta nýjum styrkjum úr sjóðnum undanfarin tvö ár vegna rýrnunar sjóðsins í efnahagshruninu árið 2008. Ávöxtun sjóðsins hefur verið góð síðastliðin tvö ár sem gerir úthlutun mögulega á næsta ári. Veittur er frestur til 15. janúar nk. til að leggja inn umsóknir.

Háskólasjóður H/f Eimskipafélagsins var upphaflega settur á laggirnar af Vestur-Íslendingum árið 1964 þegar þeir lögðu til hans hlutabréfaeign sína í Eimskipafélaginu.  Sjóðurinn er nú í vörslu Landsbankans og hefur starfað í núverandi mynd frá árinu 2005 en þá voru gerðar veigamiklar breytingar á fyrirkomulagi hans með það að markmiði að veita styrki til stúdenta í rannsóknatengdu framhaldsnámi við Háskóla Íslands.  Fyrsta úthlutun úr sjóðnum eftir þær breytingar fór fram árið 2006 og síðan hafa á sjötta tug doktorsnema á sviðum raunvísinda, hugvísinda, heilbrigðisvísinda, menntavísinda og félagsvísinda stundað rannsóknir við Háskóla Íslands með stuðningi sjóðsins. 

Breytingar hafa verið gerðar á skipan stjórnar sjóðsins og í henni tekur nú sæti fulltrúi Háskóla Íslands. Stjórnina skipa eftir breytingar Gunnar Helgi Hálfdánarson, formaður bankaráðs Landsbankans, Steinþór Pálsson bankastjóri og Kristín Ingólfsdóttir, rektor Háskóla Íslands.

Kristín Ingólfsdóttir segir að það skipti skólann miklu máli að hafa öfluga styrktarsjóði að bakhjarli. „Þessi sjóður gefur skólanum færi á að laða til sín úrvalsnemendur með því að bjóða upp á allt að þriggja ára styrki líkt og þekkist hvarvetna við rannsóknaháskóla í nágrannalöndum okkar. Við höfum þegar séð mikinn árangur í sköpun nýrrar og mikilvægrar þekkingar með tilkomu þessara styrkveitinga.“ Steinþór Pálsson, bankastjóri Landsbankans, segir samvinnu við Háskóla Íslands afar mikilsverða fyrir bankann og ánægjulegt að geta stuðlað að velgengni skólans.  „Það er því gott til þess að vita að fjárhagsstaða Háskólasjóðs Eimskipafélagsins er sterk og að ávöxtun hans hefur verið framar vonum það sem af er árinu. Sá árangur gerir sjóðnum kleift að styðja myndarlega við doktorsnema í Háskóla Íslands.“

Stúdentar sem skráðir eru í doktorsnám við Háskóla Íslands geta sótt um styrki úr sjóðnum. Kennarar og sérfræðingar geta enn fremur sótt um styrki fyrir væntanlega doktorsnema. Sérstök úthlutunarnefnd verður skipuð til að meta umsóknir ásamt vísindanefnd háskólaráðs.  

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is