Háskóli Íslands

Helga M. Ögmundsdóttir hlýtur styrk vegna árangurs í rannsóknum á brjóstakrabbameini

Helga M. Ögmundsdóttir, prófessor við Háskóla Íslands, hlaut í dag rannsóknarstyrk úr sjóði Selmu og Kays Langvads. Kristín Ingólfsdóttir, rektor Háskóla Íslands, afhenti styrkinn sem hljóðar upp á 75.000 danskar krónur eða 975.000 íslenskar krónur. Styrkurinn kemur til vegna samstarfs íslenskra og danskra vísindamanna sem hafa treyst rannsóknir á eðli brjóstakrabbameins í konum.

Drjúgur hluti af starfi Helgu M. Ögmundsdóttur hefur falist í uppbyggingu meistara- og doktorsnáms við læknadeild Háskóla Íslands. Helga hóf rannsóknir á brjóstakrabbameini fyrir tveimur áratugum en markmið hennar var að rækta raunverulegar brjóstakrabbameinsfrumur beint úr æxlum, í stað þess að notast við frumulínur eins og langalgengast er.
„Með því að rækta krabbameinsfrumur beint úr æxli, er hægt að nálgast betur upplýsingar um hegðun og eðli krabbameinsins í viðkomandi einstaklingi,“ segir Helga M. Ögmundsdóttir.
„Í framhaldi af þessu höfum við þróað aðferðir til að mynda svokallaðar frumulínur úr brjóstaæxlum sem bera sérstaka íslenska stökkbreytingu í áhættugeni fyrir brjóstakrabbameini. Þessar frumulínur erum við nú að nota til að prófa ný lyf, en til eru lyf eða lyfjasprotar sem mikil ástæða er til að ætla að verki sérstaklega á æxli sem hafa gallaða starfsemi í þessu áhættugeni.“

Að sögn Helgu má vænta þess að lyfin sem hafa verið reynd við þessar aðstæður á rannsóknarstofum muni valda miklum breytingum á batahorfum einstaklinga sem greinast með þessi mein. Þess má geta að nærri 150 konur greinist á ári hverju með krabbamein í brjóstum og tveir til þrír karlmenn.
Með samstarfi við danska vísindamanninn Ole William Petersen, sem er prófessor við læknadeild Kaupmannahafnarháskóla, tókst Helgu ætlunarverk sitt en þekkingin sem af þessu hlaust er lykilatriðið í rannsóknum Helgu á frumulíffræði brjóstakrabbameina.

Sjóður Selmu og Kays Langvads var stofnaður með peningagjöf hjónanna Selmu, fæddrar Guðjohnsen, og Kays Langvads verkfræðings við Háskóla Íslands árið 1964. Tilgangur sjóðsins er að efla menningarleg tengsl Íslands og Danmerkur. Í því skyni eru veittir styrkir úr sjóðnum til námsdvalar fyrir Íslendinga í Danmörku og fyrir Dani til námsdvalar á Íslandi. Enn fremur er heimilt að styrkja hverja þá starfsemi sem stjórn sjóðsins telur að stuðla muni að því markmiði sem sjóðnum er ætlað að vinna eftir.

 

Ljósmynd: Ármann Snævarr, Helga M. Ögmundsdóttir, Sören Langvad, Kristín Ingólfsdóttir og Helga Brá Árnadóttir.

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is