Tveimur styrkjum var úthlutað úr Styrktarsjóði Sigríðar Lárusdóttur þriðjudaginn 25. júní sl. Styrkirnir renna til rannsókna á stoðkerfissjúkdómum sem Sigurveig Pétursdóttir bæklunarskurðlæknir og Guðrún Lilja Óladóttir læknir standa að.
Heildarupphæð styrkjanna nemur einni milljón og fjögur hundruð þúsund krónum en þetta er í fyrsta sinn sem úthlutað er úr sjóðnum.
Sigurveig Pétursdóttir hlaut styrk fyrir rannsóknarverkefnið Nýgengi mjaðmarliðhlaups, Perthes-sjúkdóms og vaxtarlínuskriðs í mjöðm frá og með 2008 til og með 2013. Markmið rannsóknarinnar er að kanna nýgengi, þ.e. fjölda tilvika á hverju ári, og auka þekkingu á mjaðmarsjúkdómum barna hérlendis. Rannsóknin nær til þriggja algengustu mjaðmarsjúkdóma barna að frátöldum bólgusjúkdómum. Um er að ræða meðfætt mjaðmarliðhlaup, vaxtarlínuskrið í liðhöfði mjaðmar og Perthes-sjúkdóm.
Nýgengi meðfædds mjaðmarliðhlaups og vaxtarlínuskrið hefur ekki verið kannað áður á Íslandi. Nýgengi Perthes-sjúkdóms hefur verið kannað í einni rannsókn hérlendis og kom í ljós að það var hærra en almennt gerist á Vesturlöndum. Nýgengi hefur einnig verið hærra í Færeyjum og Grænlandi en annars staðar á Vesturlöndum.
Mikilvægt er að greina og meðhöndla mjaðmarsjúkdómana og er meðferð þeirra í sífelldri framþróun. Því er afar mikilvægt að fylgjast með nýgengi og ætluðum áhættuþáttum. Niðurstöður verða bornar saman við niðurstöður rannsókna annars staðar á Vesturlöndum.
Sigurveig hlaut sérfræðiréttindi í bæklunarskurðlækningum í Svíþjóð árið 1991 og starfar nú sem bæklunarskurðlæknir við Landspítala – háskólasjúkrahús. Hún hefur sinnt kennslu læknanema, hjúkrunarnema og sjúkraþjálfunarnema í fjölda ára.
Guðrún Lilja Óladóttir hlaut styrk fyrir rannsóknina Afdrif sjúklinga í kjölfar myndrannsóknar á lendhrygg sem er unnin í samstarfi við sérfræðinga á heila- og taugaskurðdeild og myndgreiningardeild Landspítala – háskólasjúkrahúss.
Mjóbakverkur er algengt og oft alvarlegt stoðkerfisvandamál á Íslandi og er stundum brugðist við honum með myndrannsókn af lendhrygg, sérstaklega ef taugaeinkenni eru einnig til staðar. Segulómrannsókn og tölvusneiðmyndun eru helstu myndrannsóknaraðferðirnar og niðurstöður þeirra eru notaðar til að velja meðferð.
Markmið rannsóknarinnar er að öðlast yfirsýn yfir og betri skilning á samsetningu þess sjúklingahóps sem fer í myndrannsókn af lendhrygg vegna verkja og taugaeinkenna. Auk þess er ætlunin að skilgreina betur samhengi ábendinga og niðurstöður myndrannsókna, sérstaklega ef kemur til aðgerðar í framhaldinu. Í rannsókninni verður einnig kannað hlutfall þeirra sem fara í aðgerð innan þriggja ára eða endurtekið í myndrannsókn af lendhrygg.
Guðrún Lilja útskrifaðist árið 2010 frá Læknadeild Háskóla Íslands og starfar nú sem deildarlæknir á myndgreiningardeild Landspítala – háskólasjúkrahúss. Hún stefnir á að sérhæfa sig innan greinarinnar.
Tilgangur Styrktarsjóðs Sigríðar Lárusdóttur er að efla rannsóknir á sviði bæklunarlækninga en sérstök áhersla er lögð á rannsóknir á meðfæddum göllum í mjaðmalið, svo sem ættgengi, tíðni og afleiðingum. Sjóðinn stofnaði Sigríður Lárusdóttir (f. 5. maí 1918) 27. ágúst 2003 til minningar um þá sem hafa glímt við meðfædda sjúkdóma í mjöðm en Sigríður átti við þann sjúkdóm að stríða frá fæðingu.