Herbjörg Andrésdóttir, BS-nemi í Umhverfis- og byggingarverkfræði, hefur hlotið viðurkenningu úr Minningarsjóði Þorvalds Finnbogasonar stúdents. Frú Vigdís Finnbogadóttir, systir Þorvalds, afhenti styrkinn við hátíðlega athöfn í Hannesarholti í dag, laugardaginn 21. desember.
Tilgangur sjóðsins er að styrkja efnilega nemendur við verkfræðideildir Háskóla Íslands til framhaldsnáms í verkfræði og er það nemandi með hæstu meðaleinkunn eftir annað ár í grunnnámi sem hlýtur styrkinn.
Minningarsjóður Þorvalds Finnbogasonar stúdents var stofnaður af foreldrum Þorvalds, Sigríði Eiríksdóttur og Finnboga Rúti Þorvaldssyni, fyrrverandi forseta verkfræðideildar Háskóla Íslands. Árlega er veitt viðurkenning úr sjóðnum til afburðanemanda í verkfræði við Háskóla Íslands en sjóðurinn var stofnaður á 21 árs afmæli Þorvalds, þann 21. desember 1952.
Herbjörg Andrésdóttir hóf BS-nám í Umhverfis- og byggingarverkfræði við Háskóla Íslands árið 2011. Hún er dóttir Maríu Kjartansdóttur og Andrésar Jóhannssonar. Herbjörg er meðlimur í Flensborgarkórnum og hefur sungið með honum samhliða námi en hún hefur sungið í kór frá tíu ára aldri. Herbjörg hyggur á framhaldsnám í Noregi að grunnprófi loknu.
Margir úr röðum styrkhafa hafa farið utan til náms, kennt við verkfræðideildir Háskóla Íslands eða hafa starfað hjá verkfræðistofum og hátæknifyrirtækjum víðs vegar um heiminn. Dæmi um styrkhafa eru Arnar Björn Björnsson sem hlaut styrkinn árið 2008 en hann er nú doktorsnemi við California Institute of Technology. Pétur K. Maack, doktor í rekstrarverkfræði og fyrrverandi flugmálastjóri hlaut styrk úr sjóðnum árið 1967. Hann var um árabil dósent við verkfræðideild Háskóla Íslands og síðar prófessor við sömu deild. Þá hlaut Ólöf Rós Káradóttir styrk úr sjóðnum árið 1995. Ólöf er byggingarverkfræðingur hjá Verkís og öflugur samstarfsaðili Verkfræði- og náttúruvísindasviðs Háskóla Íslands.
Í stjórn sjóðsins situr frú Vigdís Finnbogadóttir ásamt Hilmari Braga Janussyni, forseta Verkfræði- og náttúruvísindasviðs Háskóla Íslands, og Kristínu Ingólfsdóttur, rektor Háskóla Íslands.
Styrktarsjóðir Háskóla Íslands hafa umsjón með sjóðum og gjöfum sem Háskóla Íslands hafa verið ánafnaðar allt frá stofnun hans. Þeir starfa samkvæmt staðfestri skipulagsskrá og er þeim ætlað að styðja ýmis verkefni á ákveðnum fræðasviðum til hagsældar fyrir Háskóla Íslands, stúdenta eða starfsfólk.