Háskóli Íslands

Hlýtur styrk til rannsókna á áhrifum spyrnuhreyfinga hjá knattspyrnumönnum

Styrkur til rannsókna á sviði bæklunarlækninga með áherslu á stoðkerfissjúkdóma var veittur úr Sjóði Sigríðar Lárusdóttur við Háskóla Íslands 2. október sl. Styrkhafi er Stefán Ólafsson, sjúkraþjálfari MTc, og nemur styrkurinn 500 þúsund krónum. Þetta í þriðja sinn sem úthlutað er úr sjóðnum.

Rannsókn Stefáns felst í að skoða lífaflfræði mismunandi spyrnuhreyfinga í knattspyrnu og að meta hvort endurtekin spörk leiði til vöðva- og bandvefsójafnvægis kringum mjaðmir hjá ungum knattspyrnumönnum. Slíkt getur leitt til álagsvandamála og hrörnunar í hnjám og mjöðmum sem þekkt er hjá fyrrverandi knattspyrnumönnum.  

Í rannsókninni er gerður samanburður á 13 ára og 18 ára leikmönnum, en eldri hópurinn hefur lokið lengdarvexti. Liðleiki í mjöðmum er metinn með liðmæli og styrkhlutföll mjaðmavöðva með kraftmæli.  Einnig er gerð þrívíddarhreyfigreining á álags- og hreyfikröftum á mjaðmagrind, mjöðm og hné með áherslu á fótinn sem ber þunga líkamans við spyrnu. Notaðar eru átta innrauðar Vicon-myndavélar ásamt þrýstiplötu og þráðlausum vöðvaritsmælum (EMG) á átta vöðvum í fætinum. Fáar rannsóknir eru til þar sem vöðvaritsmæling og hreyfigreining á afstöðu á bol, mjöðmum og hné er skoðuð í samhengi og er þetta fyrsta rannsókn sinnar tegundar með áherslu á mjöðm. Í rannsókninni er einnig kannað hvort að eldri leikmannahópurinn sé hjólbeinóttari og hvort það tengist spyrnum eða ójafnvægi í liðleika og styrk.  Markmiðið er að meta álag á liðbönd og liðþófa í hné og að kanna hvort lífaflfræði spyrna eigi mögulega þátt í þróun beinbreytinga við mjaðmarlið.  Það er von rannsakanda að niðurstöðurnar geti gefið leiðbeiningar um hve mikið unglingar í vexti eigi að sparka bolta og að finna leiðir til forvarnar meiðslum í mjöðmum, hnjám og hrygg.

Rannsóknin er unnin í samstarfi við Háskólann í Dundee og IMAR (Institution of motion analysis and research) á Ninewells-sjúkrahúsinu í Bretlandi og knattspyrnufélögin Dundee United FC og Riverside SC. Aðalleiðbeinandi í rannsókninni var Sheila Gibbs, sjúkraþjálfari DPT. http://www.orthopaedics.dundee.ac.uk/

Stefán Ólafsson er sjálfur fyrrverandi knattspyrnumaður. Hann útskrifaðist sem sjúkraþjálfari frá Háskóla Íslands árið 1990 og hlaut viðurkenningu í svokallaðri Manual Therapy frá University of St. Augustine árið 2000.  Stefán var fyrstur Íslendinga til að fá viðurkenningu í svokölluðum Sportsmetrics, forvarnaraðferðum hnémeiðsla, frá Cincinnati Sportsedicine. Hann starfar nú hjá Eflingu, sjúkraþjálfun á Akureyri.  Stefán hefur í kjölfar sérhæfingar í öxlum og neðri útlimum haldið fyrirlestra og námskeið fyrir félagasamtök víða um land.  Má þar nefna Félag sjúkraþjálfara, Íþróttasamband Íslands og námsskeiðsröðina „Þjálfum betur“.

Tilgangur Sjóðs Sigríðar Lárusdóttur við Háskóla Íslands er að efla rannsóknir á sviði bæklunarlækninga en sérstök áhersla er lögð á rannsóknir á meðfæddum göllum í mjaðmarlið, svo sem ættgengi, tíðni og afleiðingar. Sjóðinn stofnaði Sigríður Lárusdóttir (f. 5. maí 1918) árið 2005 til minningar um þá sem hafa glímt við meðfædda sjúkdóma í mjöðm en Sigríður átti við þann sjúkdóm að stríða frá fæðingu.

Styrktarsjóðir Háskóla Íslands hafa umsjón með sjóðum og gjöfum sem Háskóla Íslands hafa verið ánafnaðar allt frá stofnun hans. Flestir þeirra starfa samkvæmt staðfestri skipulagsskrá og er þeim ætlað að styðja ýmis verkefni á ákveðnum fræðasviðum til hagsældar fyrir Háskóla Íslands, stúdenta eða starfsfólk.
 

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is