Bergþóra Sigríður Snorradóttir lauk kandídatsprófi í lyfjafræði frá Háskóla Íslands árið 2006. Hún hóf doktorsnám sama ár undir leiðsögn Más Mássonar prófessors.
Rannsóknaverkefni: Sílikonforðakerfi fyrir lyfjagjöf
Tilgangur verkefnisins er að rannsaka eiginleika sílíkonforðakerfa og þróa forðakerfi fyrir gjöf á lyfjum og öðrum lífvirkum efnum í gegnum húð. Þróað verður líkan til að mæla losun efna úr mismunandi sílikonum. Líkanið verður síðan notað til að mæla losun ýmissa lyfja sem hafa klínískt gildi og annarra lífvirkra efna úr sílikoni. Þeir þættir sem hafa áhrif á flæði lyfja í sílikoni og losun úr sílikonforðakerfum verða skilgreindir. Eiginleikar forðakerfisins verða hámarkaðir og hannað staðlað gæðapróf.
Fífa Konráðsdóttir lauk BS-prófi í sameindalíffræði frá Háskóla Íslands árið 2001 og MS-prófi í lyfjavísindum frá lyfjafræðideild árið 2006. Hún hóf doktorsnám sama ár undir leiðsögn Þorsteins Loftssonar prófessors.
Rannsóknaverkefni: Þróun augndropa og burðarefnis fyrir lyf sem innihalda fitusýrur eingangraðar úr fiskalýsi
Meginmarkmið rannsóknarinnar eru tvíþætt. Í fyrsta lagi að þróa og framleiða augndropa þar sem virka efnið samanstendur af fitusýrublöndu (ómettaðar fitusýrur) sem er einangruð úr lýsi. Í öðru lagi er markmiðið að hanna augnlyfjaform þar sem fitusýrublanda er notuð sem burðarefni fyrir fitusækin lyf.
Phatsawee Jansook lauk BS-prófi í lyfjafræði frá Silpakorn-háskóla í Taílandi árið 1997 og MS-prófi í lyfjafræði frá Chulalongkorn-háskóla í Bangkok í Taílandi árið 2006. Hann hóf doktorsnám árið 2007 undir leiðsögn Þorsteins Loftssonar prófessors.
Rannsóknaverkefni: Þróun á nanótækni til lyfjagjafar í auga
Sjúkdómar í bakhluta augans eru helsta orsök blindu en jafnframt er lyfjameðhöndlun slíkra sjúkdóma oftast erfið þar sem mjög erfitt er að ná fram læknisfræðilegri þéttni lyfs í bakhluta augans eftir staðbundna lyfjagjöf, svo sem með augndropum. Því verður oft að sprauta lyfjunum beint inn í augað, eða gefa þau í töflum, en slíkar lyfjagjafir eru oft óhentugar, áhættusamar og valda tíðum aukaverkunum. Markmið þessa verkefnis er að ráða bót á þessu með þróun nýrrar örtækni til augnlyfjagjafar. Með henni verður hægt að auka flæði lyfja inn í bakhluta augans sem og mynda lyfjaforða í auga þannig að fækka megi tíðni lyfjagjafa. Mynduð verða örkorn (nanó- og míkrókorn) úr sýklódextrínfásykrungum og öðrum hjálparefnum. Augnlyfjum verður komið fyrir í örögnunum og rannsakaðir eðlisefnafræðilegir eiginleikar þeirra, svo sem losunarhraði lyfja og viðloðun agnanna við slímhimnur. Þá verða tilteknar lyfjasamsetningar rannsakaðar í tilraunadýrum. Jafnframt er stefnt að því að rannsaka valin lyf í mönnum.
Skúli Skúlason lauk kandídatsprófi í lyfjafræði frá Háskóla Íslands árið 1998. Hann hóf doktorsnám árið 2007 undir leiðsögn Þórdísar Kristmundsdóttur prófessors.
Rannsóknaverkefni: Lyfjaform til notkunar á slímhúðir – meðferðir við munnangri og frunsu
Markmið verkefnisins er að bæta lyfjagjöf á slímhúð og þróa lyfjaform sem geta staðbundið lyfjaformið. Með því að ná góðri slímhimnuviðloðun lyfjaforms og stjórna losun lyfs frá því má bæta aðgengi lyfs og ná betri árangri í meðferð. Miðað er að því að þróa lyfjaform til gjafar á slímhúð, koma lyfi fyrir í þeim og sýna fram á virkni með klínískum rannsóknum. Unnið verður með tvö virk efni, doxýcýklín og mónókaprín, en áherslan er á þróun lyfjameðferða annars vegar við munnangri og hins vegar við frunsum.